Lokadagur skráninga á söngnámskeið.

Lokadagur fyrir skráningu er 1. október - námskeiðið hefst 4. október.

Tómstundanefnd stendur fyrir söngnámskeiði fyrir byrjendur í október og nóvember. Námskeiðið inniheldur fjóra einkatíma sem hver er 30 mínútur og þrjá hóptíma sem standa í 45 mínútur. Fyrsti hóptíminn verður föstudaginn 4. október klukkan 16.00 í salnum á 2. hæð í Hamrahlíð 17. Hóptímarnir eru kenndir á sama tíma á föstudögum en einkakennsla verður skipulögð með hverjum og einum. Ekki þarf að hafa neina fyrri reynslu af söng, aðeins áhugann. Kennari á námskeiðinu verður Dagbjört Andrésdóttir.

Í einkatímum er lögð áhersla á grunnatriði í öndunartækni og raddbeitingu ásamt því að læra lög sem þátttakendum finnast skemmtileg. Í hóptímunum verður unnið með hópefli, m.a. með spuna og tónlistarleiki, sungin saman skemmtileg lög og skerpt á tækniatriðum.

Skráningargjald er 5.000 krónur og fer skráning fram á skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525-0000. Hámarksfjöldi á námskeiðið eru sex einstaklingar og lýkur skráningum þriðjudaginn 1. október.

Um kennarann:

Dagbjört Andrésdóttir er fædd árið 1991. Hún hefur sungið frá unga aldri. Hún byrjaði fyrst í Stúlknakór Reykjavíkur hjá Margréti Pálmadóttur og hóf svo eiginlegt söngnám 14 ára í Söngskólanum Domus Vox, einnig hjá Margréti. Þar voru aðalkennarar hennar Hanna Björk Guðjónsdóttir, Margrét Pálmadóttir og Antonia Hevesi. Dagbjört lauk þeim hluta námsins með lokatónleikum árið 2014, þá komin yfir í kvennakórinn Vox Feminae. Það ár  hóf hún nám í Söngskóla Sigurðar Demetz, undir leiðsögn Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Diddúar. Dagbjört lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2018 og er nú á háskólastigi hjá Diddú við sama skóla. Samhliða námi hefur Dagbjört oft sungið einsöng við ýmis tækifæri, bæði innan skólans sem og með kórum sínum bæði á Íslandi, Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku. Hún kemur einnig fram við ýmis önnur tækifæri hér á landi, m.a. við messur, jarðarfarir, afmæli, samkomur og annað.