Tillögur að breytingum á lögum Blindrafélagsins Á aðalfundi Blindrafélagsins 26. maí 2022

Tillögur að breytingum á lögum Blindrafélagsins  Á aðalfundi Blindrafélagsins 26. maí 2022

 

I. Inngangur

Þann 1. nóvember 2021 tóku gildi lög nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Fyrirhugað er að Blindrafélagið breyti um félagaform og verði félag til almannaheilla (fta.) og því fari um starfsemi félagsins eftir lögum um félög til almannaheilla. Eins og er er Blindrafélagið almenn félagasamtök og engin heildarlög gilda því um starfsemi þess.

Samkvæmt 2. gr. laga um félög til almannaheilla nr. 110/2021 geta ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá. Til þess að öðlast skráningu í almannaheillafélagaskrá þarf að umbreyta félaginu í félag til almannaheilla.

Lög um félög til almannaheilla gera ákveðnar kröfur til laga (eða samþykkta) félaga sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá. Tillögur þessar að breytingum á lögum Blindrafélagsins eru settar fram í því augnamiði að þeim kröfum sé mætt.

Lagðar eru til breytingar á 4., 8., 13., og 22. gr. til að mæta kröfum laga um félög til almannaheilla. Þá er tillaga að breytingu á 1. gr. sem er ekki nauðsynleg til að mæta kröfum laga um almannaheillafélög og er því valkvæð að öllu leyti. Að lokum er breytingartillaga á 23. gr. sem er formlegs eðlis.

 

II. Breytingartillögur

 

1. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Nafn félagsins er Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Enskt heiti félagsins er: Blindrafelagid, Icelandic Association of the Visually Impaired (BIAVI).

Tillaga A:

Greinin verði óbreytt.

Tillaga B:

Greinin hljóði svo:

Nafn félagsins er Blindrafélagið fta., samtök blindra og sjónskertra á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Enskt heiti félagsins er: Blindrafelagid, Icelandic Association of the Visually Impaired (BIAVI).

Athugasemd:

Tillaga B felur í sér að skammstöfuninni „fta.“ er skeytt aftan við heiti Blindrafélagsins.

Samkvæmt 31. gr. laga um félög til almannaheilla er þeim félögum til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá heimilt að hafa orðin félag til almannaheilla eða skammstöfunina „fta.“ í heiti sínu. Tilgreining skammstöfunarinnar í heiti Blindrafélagsins myndi þjóna því markmiði að gera velunnurum og öðrum sem eiga í samskiptum eða viðskiptum við Blindrafélagið grein fyrir því að Blindrafélagið er félag til almannaheilla sem starfar að einu og öllu eftir lögum um félög til almannaheilla. Nýting þessarar heimildar breytir engu varðandi réttarstöðu félagsins og er því einungis beint út á við. Breyting þessi er því valkvæð.

 

 

4. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Félagsmaður getur hver sá orðið sem hefur sjón sem nemur 6/18 eða minna, eða hefur sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við greinda sjónskerðingu að mati augnlæknis og greiðir árstillag til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar.

Forráðamenn ólögráða barna sem uppfylla skilyrði til félagsaðildar skv. 1. mgr. fara með félagsleg réttindi og skyldur barnanna. Sama á við um þá félagsmenn sem sökum fjölfötlunar eða af öðrum ástæðum geta ekki sinnt félagslegum skyldum sínum eða gætt hagsmuna sinna.

Stjórn Blindrafélagsins fer yfir umsóknir um félagsaðild og staðfestir. Afgreiðslur stjórnar skulu staðfestar af aðalfundi Blindrafélagsins.

Tillaga:

Greinin hljóði svo:

Félagsmaður getur hver sá verið sem hefur sjón sem nemur 6/18 eða minna, eða hefur sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við greinda sjónskerðingu að mati augnlæknis.

Stjórn Blindrafélagsins fer yfir umsóknir um félagsaðild og staðfestir. Afgreiðslur stjórnar skulu staðfestar af aðalfundi Blindrafélagsins.

Félagsmenn skulu greiða árstillag til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar. Félagsmenn njóta aðildar frá greiðslu fyrsta árstillags.

Úrsögn úr Blindrafélaginu skal berast skriflega. Skuldi félagsmaður árstillag til tveggja ára er stjórn Blindrafélagsins heimilt að skrá félagsmann af félagaskrá.

Forráðamenn ólögráða barna sem uppfylla skilyrði til félagsaðildar skv. 1. mgr. fara með félagsleg réttindi og skyldur barnanna. Sama á við um þá félagsmenn sem sökum fjölfötlunar eða af öðrum ástæðum geta ekki sinnt félagslegum skyldum sínum eða gætt hagsmuna sinna.

Athugasemd:

Samkvæmt d. lið 5. gr. laga um félög til almannaheilla skal tilgreina í samþykktum félags skyldu félagsmanna til að greiða félagsgjöld og önnur gjöld til félagsins. Hér er í fyrsta lagi lagt til að ný málsgrein bætist við 4. gr. laga Blindrafélagsins sem mælir fyrir um skýlausa skyldu félagsmanna til að greiða árstillag til félagsins. Í sömu málsgrein er tekið fram að félagsmenn njóti aðildar frá greiðslu fyrsta árstillags.

Að auki felur tillagan í sér að við 4. gr. bætist ný 5. málsgrein, sem kveður á um að úrsögn úr Blindrafélaginu skuli berast skriflega og að skuldi félagsmaður árstillag til tveggja ára sé stjórn Blindrafélagsins heimilt að skrá félagsmann af félagaskrá. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um félög til almannaheilla má vísa manni úr félagi á grundvelli ástæðna sem nefndar eru í samþykktum þess. Lagt er því til hér að hér sé fjallað með ítarlegri hætti en áður var um hvernig komið geti til endaloka félagsaðildar félagsmanna, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða vegna þess að árstillag er ekki greitt í tiltekinn tíma.

 

8. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal jafnframt leggja mat á kjörgengi frambjóðenda og athuga hvort að félagsgjöld séu í skilum.

Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.

Tillaga:

Greinin hljóði svo:

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal jafnframt leggja mat á kjörgengi frambjóðenda og athuga hvort að félagsgjöld séu í skilum.

Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.

Athugasemd:

Sú breyting sem hér er lögð til er að finna í upphafi 1. mgr. 8. gr., en þar er setningunni „Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.“ skeytt framan við málsgreinina. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félög til almannaheilla fer félagsfundur með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt því sem kveðið er á um í samþykktum þess. Lagt er þannig til að í 8. gr., sem fjallar um aðalfund, sé skýr áskilnaður um að aðalfundur fari með umrætt vald.

 

13. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Stjórn Blindrafélagsins er heimilt að fela einstaklingum og nefndum, sem hún kýs, afmörkuð verkefni fyrir félagið á milli stjórnarfunda.

Gerðarbók skal halda yfir fundi stjórnar og skulu fundargerðir staðfestar af öllum viðstöddum stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra.

Tillaga:

Greinin hljóði svo:

Stjórn Blindrafélagsins er heimilt að fela einstaklingum og nefndum, sem hún kýs, afmörkuð verkefni fyrir félagið á milli stjórnarfunda.

Stjórn Blindrafélagsins veitir stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra heimild til að rita firma félagsins. Ritunarréttinn má takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu.

Stjórn Blindrafélagsins getur afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma félagsins.

Gerðarbók skal halda yfir fundi stjórnar og skulu fundargerðir staðfestar af öllum viðstöddum stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra.

Athugasemd:

Samkvæmt niðurlagi e. liðar 5. gr. laga um félög til almannaheilla skal tilgreina í samþykktum félags hverjir skuli rita félagsins. Lagt er hér til að við 13. gr. bætist ný 2. mgr., sem kveður á um að stjórn Blindrafélagsins veiti stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra þessa heimild.

Þar að auki er lagt til að strax í kjölfarið komi inn ný 3. mgr. 13. gr., sem kveður á um að stjórn Blindrafélagsins geti afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma samtakanna.

 

 

22. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingar á aðalfundi. Til venjulegra lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða, en til að slíta félaginu eða sameina það öðru félagi þarf ¾ greiddra atkvæða á tveimur fundum er slíka tillögu taka til meðferðar og skal annar þeirra vera aðalfundur. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Tillaga:

Greinin hljóði svo:

Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingar á aðalfundi. Til venjulegra lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða, en til að slíta félaginu eða sameina það öðru félagi þarf ¾ greiddra atkvæða á tveimur fundum er slík tillaga er tekin til meðferðar og skal annar þeirra vera aðalfundur. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fundur sem samþykkir að slíta félaginu ákveður einnig hvernig ráðstafa skuli eignum þess og skuldum. Eignum félagsins má aðeins ráðstafa í samræmi við markmið Blindrafélagsins.

Athugasemd:

Í fyrsta lagi er lögð til lítilsháttar orðalagsbreyting í niðurlagi núgildandi 22. gr. og þannig orðunum „er slíka tillögu taka til meðferðar“ skipt úr fyrir orðin „er slík tillaga er tekin til meðferðar“.

Í öðru lagi er lagt til að við 22. gr. laga Blindrafélagsins bætist ný málsgrein, sem kveður á um að fundur sem samþykkir að slíta félaginu ákveði hvernig fara skuli með eignir og skuldir félagsins. Jafnframt er þar settur áskilnaður um að eignum félagsins megi aðeins ráðstafa í samræmi við markmið Blindrafélagsins.

Þessi tillaga er til komin vegna i. liðar 5. gr. laga um félög til almannaheilla, sem kveður á um að í samþykktum félags skuli tilgreina hvernig fara eigi með eignir félagsins sé það lagt niður eða því slitið.

 

23. gr. laga Blindrafélagsins

Greinin hljóðar svo:

Lög Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi voru samþykkt á fundum í Blindrafélaginu 28. desember 1939, á aðalfundi 4. febrúar 1940, á aðalfundi 6. febrúar 1944, á aðalfundi 7. maí 1954, á aðalfundi 1971, á almennum félagsfundi 16. október 1971, á aðalfundi 28. maí 1979, á félagsfundi 7. febrúar 1980, á aðalfundi 9. maí 1987, á almennum félagsfundi 7. október 1987, á aðalfundi 16. maí 1992, á almennum félagsfundi 3. Júní 1992, á aðalfundi 24. apríl 1997, á aðalfundi 21. maí 2002, á aðalfundi 15. maí 2004, á aðalfundi 7. maí 2005, á aðalfundi 19. maí 2007, á aðalfundi 13. maí 2010, á aðalfundi 11. maí 2013, á aðalfundi 9 maí 2015 og á aðalfundi 6. maí 2017.

Tillaga:

Greinin hljóði svo:

Lög Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi voru samþykkt á fundum í Blindrafélaginu 28. desember 1939, á aðalfundi 4. febrúar 1940, á aðalfundi 6. febrúar 1944, á aðalfundi 7. maí 1954, á aðalfundi 1971, á almennum félagsfundi 16. október 1971, á aðalfundi 28. maí 1979, á félagsfundi 7. febrúar 1980, á aðalfundi 9. maí 1987, á almennum félagsfundi 7. október 1987, á aðalfundi 16. maí 1992, á almennum félagsfundi 3. júní 1992, á aðalfundi 24. apríl 1997, á aðalfundi 21. maí 2002, á aðalfundi 15. maí 2004, á aðalfundi 7. maí 2005, á aðalfundi 19. maí 2007, á aðalfundi 13. maí 2010, á aðalfundi 11. maí 2013, á aðalfundi 9 maí 2015, á aðalfundi 6. maí 2017 og á aðalfundi 26. maí 2022.

Athugasemd:

Hér er í samræmi við upptalningu ákvæðisins á fundum þar sem lög félagsins hafa verið samþykkt, þeim aðalfundi þar sem tillögur þessar eru lagðar fram 26. maí 2022, bætt við upptalninguna.