Alþjóðlegur dagur leiðsöguhunda

Alþjóðlegur dagur leiðsöguhunda er í dag.

Mynd af leiðsöguhundi gangandi í átt að húsi Blindrafélagsins

Blindrafélagið beitir sér fyrir því að tryggja félagsmönnum sínum aðgang að þjálfuðum leiðsöguhundum. Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk og veita þeir notendum mikið frelsi og aukið öryggi. Notandi leiðsöguhunds öðlast frelsi til þess að komast um í umhverfi sínu, innan dyra sem utan. Hundarnir leiða notendur sína framhjá hindrunum sem í vegi þeirra verða og þeir gæta þess að notandinn fái ekki trjágreinar í andlitið þar sem þær slúta yfir gangstéttir. Þeir finna auð sæti fyrir notendur sína þar sem það á við og þeir eru þjálfaðir til þess að finna ýmsa hluti svo sem lykla eða hanska sem notendur missa á ferðum sínum með hundinum. Leiðsöguhundar eru ekki síður góðir félagar og mörg dæmi eru um að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.