Fundargerð félagsfundar 2. mars 2016

1.      Fundarefni

Þann 19. feb. s.l. sendu 15 einstaklinga í Blindrafélaginu  stjórninni bréf með beiðni um að stjórnin boði til sérstaks félagsfundar. Bréfið með beiðninni er birt hér fyrir neðan:

Reykjavík. 19. febrúar 2016

Við undirritaðir félagsmenn í Blindrafélaginu förum fram á að haldinn verði almennur félagsfundur í félaginu hið fyrsta, sbr. 6. grein laga Blindrafélagsins, en þar segir  að stjórn skuli boða til og halda fundinn innan hálfs mánaðar frá því að ósk berst. Ástæða fundarbeiðninnar er sú, að við teljum að stjórn og félagsmenn hafi fengið nægjanlegt andrými til að taka afstöðu til skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins, enda teljum við það mjög óeðlilegt að stjórn félagsins telji sig þurfa sérstakt "andrými" til að fjalla um eigin misgjörðir eftir að ljóst er hún hafi ekki gefið Bergvini Oddssyni, formanni svigrúm þegar mjög alvarlegar ásakanir komu fram á hendur honum.  

Fundarefni verði umræður og atkvæðagreiðsla um eftirfarandi tillögu:

„Félagsfundur Blindrafélagsins hvetur stjórn félagsins eindregið til þess að draga vantraustsyfirlýsingu sína á Bergvin Oddsson, formann Blindrafélagsins til baka, eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund Blindrafélagsins, eða 9. mars 2016, þar sem vantrauststillagan snýr að viðskiptum Bergvins við varastjórnarmanninn Patrek Andrés Axelsson og meintan trúnaðarbrest milli formanns og stjórnar vegna viðskiptanna.  Í skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins er sagt, að það sé alls ekki augljóst, að formaður hafi rofið trúnað við stjórn Blindrafélagsins og að stjórnin hafi farið á stjórnarfundinn 22. september 2015 með takmarkaðar upplýsingar og hafi farið offari með framgöngu sinni gagnvart Bergvini, og virt andmælarétt hans að vettugi. Orðalag vantrauststillögunnar er harkalegt að mati Sannleiksnefndarinnar og að ekki sé hægt að fallast á að Bergvin hafi vélað Patrek til viðskipta, líkt og stjórn Blindrafélagsins ályktaði á umræddum stjórnarfundi.  Enda telur Sannleiksnefndin að stjórnarhættir Bergvins og vantrauststillagan séu sér aðskilin mál, sem sést best á því að í vantrauststillögu stjórnar er hvergi talað um stjórnarhætti formanns“.  

Þorsteinn Guðmundsson
Vilhjálmur H. Gíslason
Valdimar Sverrisson
Sveinn Lúðvík Björnsson
Sigurður Ármann Sigurjónsson
Sigtryggur R. Eyþórsson
Sigríður S. Jónsdóttir
Páll E. Jónsson
Magnús Jóel Jónsson
Kristrún Skúladóttir
K. María Jónsdóttir
Guðrún Pálsdóttir
Guðrún Bjarnadóttir
Friðgeir Þráinn Jóhannesson
Einar Haraldsson

Stjórn Blindrafélagsins ákvað að verða við óskum ummræddra 15 menninga og af því tilefni er þessi félagsfundur boðaður þar sem fundarefnið verði sú tillaga sem kemur fram í áðurnefndu bréfi.

2.      Fundarsetning

Halldór Sævar Guðbergsson (HSG), starfandi formaður, setti fundinn kl. 17:05. Hann bauð alla fundarmenn velkomna og bað þá sem ætluðu að taka til máls að vera málefnalega.

3.      Kynning fundarmanna

65 manns mættu á fundinn, þar af um 60 félagsmenn.

4.      Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Fundarstjóri var kosinn: Kolbeinn Óttarsson Proppé

Fundarritari: Ólafur Haraldsson

5.      Fundargerð síðasta félagsfundar

Afgreiðslu frestað.

6.      Umræður um efni fundarins

Fundarstjóri kynnti efni fundarins og bað framsögumann, Vilhjálm Gíslason (VG) að takmarka framsöguræðu sína við 10 mínútur og annarra ræðumanna við 3 mínútur.

VG tók til máls og harmaði ýmis ummáli sem fram hafa komið á báða bóga um þetta erfiða deilumál. Hann sagðist hvorki þekkja Bergvin Oddsson (BO) né núverandi stjórnarmenn persónulega. Réttlætiskennd reki hann áfram í þessu máli. Hann hvetur stjórn félagsins að draga vantraustið sem hún samþykkti á BO til baka. Hann tók fram að hann legði þunga áherslu á þetta atriði þó hann flytji það ekki sem áskorun á stjórnina. Hann hvatti alla sem á eftir honum töluðu, að tala af yfirvegun og leita sátta.

HSG tók næst til máls. Hann fór yfir aðdraganda málsins frá því að skýrsla sannleiksnefndar félagsins var kynnt.  Á kynningarfundi nefndarinnar kom samskonar tillaga fram en ekki var nægur undirbúningur til að taka hana til afgreiðslu. HSG sagði að allir hefðu fengið á baukinn í skýrslunni og allir þyrftu að taka það til sín og læra af. Hann bað síðan fundarstjóra að lesa yfirlýsingu stjórnarinnar frá 29.02.2016.

Friðgeir Jóhannesson (FJ) greip frammí og bað um að yfirlýsing BO frá 01.03.2016 verði einnig lesin upp.

Fundarstjóri sagðist skyldi skoða það en hann læsi nú yfirlýsingu stjórnar fyrir starfandi formann enda hluti af ræðutíma hans. Yfirlýsingin er sem hér segir:

Kæru félagsmenn.

Eins og ykkur er eflaust orðið ljóst fyrir löngu höfum við undirrituð í stjórn Blindrafélagsins, sem tókum ákvörðun um að lýsa vantrausti á Bergvin Oddsson formann félagsins, talið það farsælast fyrir félagið að halda umræðunni um ástæðurnar sem mest innan félagsins en sem minnst á opinberum vettvangi. Við tókum sömu afstöðu þegar skýrsla sannleiksnefndarinnar var lögð fram og ákváðum að láta innihald hennar tala sínu máli og gefa félagsmönnum tækifæri til að taka afstöðu til hennar hver fyrir sig á sínum eigin forsendum. Þegar beðið var um nýjan félagsfund til að fjalla um vantraustið á Bergvin ákváðum við að verða við þeirri beiðni enda þótt enginn gangi þess dulinn að heppilegast sé að láta komandi aðalfund setja punktinn aftan við þau átök og deilur sem því miður hafa gegnsýrt félagsstarfið að undanförnu.

Margir hafa sýnt því skilning að við höfum viljað halda opinberri umræðu, hvort heldur sem er í fjölmiðlum eða á vefsíðu okkar, um deilur innan félagsins í lágmarki. Þeir eru líka margir sem hafa gagnrýnt það að við höfum ekki svarað fyrir okkur þegar Bergvin hefur tjáð sig í fjölmiðlum eða túlkað skýrslu sannleiksnefndarinnar eftir sínu eigin höfði án þess að við höfum gripið til andsvara. Þessi ákvörðun okkar hefur einvörðungu helgast af þeirri bjargföstu trú að best sé að halda umræðunni sem allra mest innan fundarherbergja félagsins ef svo má segja. Því miður virðist það hins vegar orðið endanlega ljóst að hagur Blindrafélagsins er ekki það sem rekur Bergvin Oddsson áfram né heldur þá með honum eru í slagtogi.

Skýrsla sannleiksnefndarinnar er ekki hvítþvottur fyrir Bergvin Oddsson. Frá því er langur vegur. Hún tekur í fyrsta lagi af öll tvímæli um að Bergvin var í raun eins og fíll í glervöruverslun allar götur frá því hann settist í formannsstólinn. Í skýrslunni eru meðal annars nefnd ámælisverð afskipti formannsins af innkaupum vegna bjórsmökkunarnámskeiðs, afsögn formanns skemmtinefndar vegna afskipta stjórnarformannsins, gerræðisleg vinnubrögð gagnvart framkvæmdastjóra félagsins, tilraun formanns til að hækka eigið starfshlutfall en minnka lögbundið verksvið framkvæmdastjóra, vörslu og skil á áfengi eftir jólafund, umdeild afskipti af hefðbundnu fyrirkomulagi jólagjafa til starfsfólks félagsins og áfram mætti lengi telja. Í öllum tilfellum var formaðurinn í einkadansi og engum takti við félaga sína í stjórninni.

Í öðru lagi rekur sannleiksnefndin atburðarásina í kringum það mál sem fyllti mælinn og knúði stjórnina til tafarlausra aðgerða. Misnotkun Bergvins á aðstöðu sinni þegar hann lokkaði ungan varastjórnarmann sinn, Patrek Andrés Axelsson, til þess að leggja allt sparifé sitt inn á einkareikning sinn til þess að nota í fasteignabrask er algjörlega óafsakanlegur dómgreindarskortur. Um þann dómgreindarskort er sannleiksnefndin ekki í nokkrum vafa. Og skýrslan leiðir það einnig í ljós að í u.þ.b. hálft ár tókst Bergvini að koma í veg fyrir það að félagar hans í stjórninni fengju nokkurn pata af viðskiptatengslum hans og þessa unga varastjórnarmanns. Sú mikla leynd sem Bergvin vildi alla tíð að hvíldi yfir samskiptum þeirra er ein og sér ákaflega sérstök svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þegar Patrekur leitaði til stjórnarinnar um aðstoð við að fá peninga sína til baka blasti við veruleg hætta á því að málið rataði í fjölmiðla. Ef stjórnin hefði ekki brugðist tafarlaust við hefði kastljós fjölmiðlanna beinst að fjármálalegri misnotkun, blekkingum og þöggun innan Blindrafélagsins. Hún hefði beinst að meintri misnotkun formannsins sem stjórnin neitaði að grípa inn í þrátt fyrir eindregna og örvæntingarfulla beiðni fórnarlambsins. Og gleymum því ekki að enda þótt Patrekur sé nýlega orðinn lögráða er hann ungur að árum og að auki í þeirri lamandi stöðu að hafa nýlega fengið úrskurð um ólæknandi blindu sína. Öll þekkjum við angistina og óöryggið sem slíkum tíðindum fylgja. Þess vegna er Blindrafélagið svo mikilvæg stoð og stytta okkar og löng hefð er fyrir því að í þeim efnum er formaður félagsins fremstur í flokki. Í þessu tilfelli brást Bergvin hlutverki sínu gróflega. Framhjá þeirri staðreynd gat stjórn félagsins aldrei litið. Hún varð að grípa í taumana og afstýra því sem ella hefði orðið að stórslysi.

Um þetta fjallar skýrsla sannleiksnefndarinnar. Hún fjallar líka um margt sem betur hefði mátt fara í verklagi stjórnarinnar þegar ákvörðun um vantraust á formanninn var tekin. Hún gagnrýnir ekki ákvörðunina sjálfa heldur aðdraganda hennar. Það er auðvitað algjört lykilatriði. Nefndin gerir enga athugasemd við það að stjórnin hafi brugðist við beiðni Patreks með viðunandi hætti. Sannleiksnefndin bendir líka á nauðsyn þess að Blindrafélagið komi sér upp siðareglum og skýrum verkferlum. Við erum sammála nefndinni um það og vonandi er að aðalfundurinn okkar verði með þeim hætti að ný stjórn geti tekið við og einbeitt sér að uppbyggjandi málum morgundagsins í stað þess skotgrafahernaðar sem því miður hefur verið allsráðandi síðustu vikurnar.

Með bestu kveðju og von um bjartari tíma með hækkandi sól,

Á hlaupársdeginum 29. febrúar 2016

Halldór Sævar Guðbergsson, starfandi formaður.
Rósa María Hjörvar, varaformaður. 
Lilja Sveinsdóttir, ritari.
Baldur Snær Sigurðsson, gjaldkeri.
Rósa Ragnarsdóttir, meðstjórnandi.
Guðmundur Rafn Bjarnason, varamaður.

HSG hélt síðan ræðu sinni áfram og sagði: Tölvupóstur barst í morgun frá BO þar sem hann biðst afsökunar á sínum þætti þessa máls.

Hann sagði síðan að stjórnin muni á fundinum leggja fram yfirlýsingu í þessu máli sem í stuttu máli er sem hér segir:

a.      HSG mun draga framboð sitt til formanns til baka.

b.      Lagt verði til að lögmaður Blindrafélagsins og lögmaður BO finni sameiginlega lausn á þessu máli sem verði lagt fyrir næsta aðalfund.

c.       Stjórnin semji sér starfsreglur, þ.a.m. um ráðningarferil framkvæmdastjóra. Nánari reglur þar um verði lagðar fyrir næsta aðalfund.

Rósa María Hjörvar (RMH) kynnti nánar tillögu stjórnarinnar en á undan hvatti hún alla fundarmenn að sýna samstöðu.

Næst tekur Magnús Jóel til máls. Sagðist ekki þekkja málið og bað því um að ágreiningurinn verði rakinn í stuttu máli.

Arnþór Helgason (AH) sagðist hafa þekki alla framkvæmdastjóra félagsins frá upphafi en aldrei kynnst annarri eins uppákomu og þeirri sem nú stendur yfir. Þetta minni hann á deilur sem voru hjá ÖBÍ (2009). Hann hvetur menn til að samþykkja sáttatillögu stjórnarinnar. Engum verði gerður greiði með því að draga menn í dilka í atkvæðagreiðslu.

Steinar Björgvinsson (SB) hvetur félagsmenn til að samþykkja tillögu stjórnarinnar.

Haraldur Matthíasson vekur athygli á því að BO sé ekki á fundinum. Vill fá að vita af hverju og segir það skipta máli. Vill vita hvaða reglum stjórnin sé að vinna að, Vill t.d. að upplýsingar um þær verði birtar á blindlist. Segist styðja tillögu stjórnarinnar.

VG segist staðnæmast um orðið „vélað“ í upphaflegri samþykkt stjórnarinnar. Finnst miður að það orð hafi verið notað í samþykktinni.

María Hauksdóttir talaði næst og sagðist hafa komið of seint á fundinn vegna þess að hún væri að koma frá lækni sem hún taldi vera út af stressi. Telur höfuðatriði að félagsmenn nái sáttum. Allir hlutaðeigandi þurfi að líta í eigin barm.

RMH segir að stjórnin sitji ekki í bakherbergi til að smíða regluverk sem verði síðan troðið upp á fólk. Félagsmenn munu taka þátt í verkefninu, t.d. með einskonar þjóðfundarröð. Þetta verði nánar tilkynnt á aðalfundi, hugsanlega til afgreiðslu á aðalfundi 2017.

Magnús Jóel – Hver er lögfræðikostnaður félagsins vegna þessa máls?

Kristinn H Einarsson (KHE) – Kostnaður liggur ekki fyrir. Upplýsir í leiðinni að rekstur Blindrafélagsins og Blindravinastofunnar hafi gengið vel á s.l. ári.

Arthús Morteins (AM) – Fagnar því að aðilar vilji ná sátt. Félagið hafi þurft að þola slæmt umtal vegna þessa máls. Félagið sé félagsmönnum dýrmætt og þarf að geta áfram haldið vel utan um félagsmenn. Finnst einkennilegt að fólk beri saman hlutdeild BO og stjórnar í málinu.

Marjakaisa Matthíasson – Spyr hvað felist í afsökunarbeiðni BO. Fellur hann frá launakröfum? Fellur hann frá hugsanlegu meinyrðamáli?

HSG – Þetta kemur ekki fram í afsökunarbeiðninni. Lögmennirnir muni fara í gegnum þau mál eins og önnur. Segir að á aðalfundi verði lögð fram áætlun um siðareglur og starfsreglur.

Bryndís Snæbjörnsdóttir þakkar stjórn fyrir tillöguna, Fór yfir sögu sína hjá félaginu og dætra sinna og sagði frá góðum móttökum þeirra í félaginu. Hún telur að patrekur hafi orðið fyrir misbeitingu og þakkar stjórninni fyrir að hafa stigið inn í málið. Telur að BO eigi ekki að veita fólki fjármálaráðgjöf.

FJ finnst að það vanti í sáttartillögu stjórnarinnar að draga úr vægi orðsins „véla“. Segist sjálfur hafa misst æruna 17 ára gamall og það sé stórt mál. Segist samþykkja tillögu stjórnar ef orðið „véla“ verði tekið úr upphaflegri samþykkt stjórnar.

AM segir óheppilegt að fundurinn eða stjórnin breyti skýrslu sannleiksnefndarinnar.

VG segir að sannleiksnefndin hafi ekki tekið undir orðið „véla“. Hún var ósammála þeirri orðanotkun.

SB telur sáttina góða, báðir eiga að gefa eftir. Hugmynd um sáttarnefnd kom frá grasrótinni sem sé gott.

HSG óskaði eftir 5 mínútna fundarhléi sem var samþykkt.

Að fundarhlé loknu tilkynnti fundarstjóri að fundur hæfist aftur eftir langar 5 mínútur.

VG segist vera ánægður með að fá orðið. Telur að grundvöllur sé kominn til að slíðra sverðin. Spyr hvort nokkur fimmtánmenningana sé á móti því að draga tillöguna til baka?

Enginn gefur sig fram.

VG telur að mikilvægara sé að ná sátt og segist því draga tillögu fimmtánmenningana til baka.

(Samþykkt með lófaklappi).

Fundarstjóri kynnir síðan eftirfarandi drög af ályktun sem samþykkt var samhljóða:

„Mál er að deilum í tengslum við vantraust stjórnar Blindrafélagsins á formann félagsins linni. Því miður hafa félagsmenn neyðst til að setja sig inn í efnisatriði þessara deilna og taka afstöðu til þeirra. Það er einnig miður að deilurnar skuli ítrekað hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hafa hugsanlega skaðað ímynd Blindrafélagsins. Formaður félagsins hefur nú beðið félagsmenn afsökunar á mistökum sínum og stjórnin hefur tekið undir með sannleiksnefndinni um að margt hefði mátt betur fara í vinnubrögðum hennar og samskiptum við formanninn og biðst hún afsökunar á því.

Félagsfundurinn telur það ekki þjóna hagsmunum Blindrafélagsins að útkljá deilurnar á þessum fundi með því að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanna. Sé einhvers konar uppgjör þeirra í millum óhjákvæmilegt er aðalfundurinn sem framundan er og kosning á honum til næstu stjórnar eðlilegasti vettvangur þess. Þess vegna samþykkir fundurinn að lýsa yfir vonbrigðum sínum með atburðarás undanfarinna mánaða og lætur í ljós von um að aðalfundurinn 19. mars nk. geti orðið upphaf nýrrar uppbyggingar trausts og samstöðu innan félagsins“.

7.      Önnur mál

FJ þakkar stjórninni fyrir sáttartillöguna og tilkynnir síðan að hann dragi framboð sitt til baka.

Sigþór U Hallfreðsson lýsir ánægju með niðurstöðu fundarins og tilkynnir um fund hjá RP deild á morgun þar sem talað verði um erfðarannsóknir á augnsjúkdómum.

HSG – Telur að nýsamþykkt ályktun sé stórt skref til sátta. Mikil vinna verði á næsta ári við reglusetningu. Hann þakkar síðan fundarmönnum kærlega fyrir fundinn. 

Fundarstjórn sleit fundi kl. 19:05.

Fundargerð ritaði Ólafur Haraldsson