Fundargerð stjórnar nr. 20 2016-2017

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Rósa María Hjörvar (RMH) varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS) ritari, Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ) gjaldkeri, Lilja Sveinsdóttir (LS) meðstjórnandi, María Hauksdóttir (MH) varamaður,  Patrekur Andrés Axelsson (PAA) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður.

1.  Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu að dagskrá sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

Lýst eftir öðrum málum: RMH, MH.

2.  Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 18. og 19. fundar, sem sendar voru til fundarmanna fyrir fundinn voru samþykktar.

3. Skýrslur.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

        Aðalfundur Blindrafélagsins 6. maí.

        NSK, NKK og NUK fundur í Finnlandi 20. – 22. mars.

        Umsögn: Stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 til 2021.

        Heimsókn til Stígamóta 3. maí.

        Hádegisspjall 15. maí.

        Stuðningur til sjálfstæðis.

        Blind börn á Íslandi.

        Andleg vellíðan – fyrirlestraröð.

        Leiðarlínur i anddyri Hamrahlíðar 17.

        Biðskýli Strætó b.s. við Hamrahlíð 17.

        Af norrænu samstarfi.

        Af vettvangi EBU.

        Af vettvangi ÖBÍ.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

        Rekstraryfirlit fyrir 1. ársfjórðung 2017.

        Undirbúning aðalfundar.

        Stuðningur til sjálfstæðis (STS).

        Húsnæðismál.

        VISAL

        Fjáraflanir.

        Ferðaþjónusta.

Afgreiðsla STS var samþykkt. RMH vék af fundi við þá afgreiðslu.

4. Bréf og erindi.  

SUH vakti athygli á boði á frumsýningu á myndböndum aðildarfélaga ÖBÍ.

SUH kynnti minnispunkta af seinasta NSK fundi, sem að sendir voru fundamönnum fyrir fundinn.

5. Rekstraryfirlit fyrir fyrsta ársfjórðung 2017.

Fyrstu 3 mánuði ársins eru tekjur af starfsemi félagsins 59,4 milljónir króna sem er 8,3% yfir áætlun. Fyrir sama tímabil 2016 voru heildartekjur 57,3 milljónir króna. Heildarrekstrargjöld eru uppá 51,4 milljónir króna sem er 5,5% undir áætlun. Fyrir sama tímabil 2016 voru heildarrekstrargjöld 63,2 milljónir króna. Rekstrarhagnaður tímabilsins er að fjármagnsliðum meðtöldum 7,4 milljónir króna.  Frekari sundurliðun er í sérstöku yfirliti sem sent er út með fundargögnum.

Stjórnarmenn lýstu yfir mikilli ánægju með rekstrarafkomuna.

6. Aðalfundur Blindrafélagsins 2017.

Aðalfundur Blindrafélagsins verður haldinn laugardaginn 6. maí og hefst hann klukkan 13:00.
SUH fór yfir undirbúning fundarins sem er á áætlun.
SUH gerði tillögu um Stefán Ólafsson sem fundarstjóra og Gísla Helgason sem fundarritara og var sú tillaga samþykkt samhljóða.
SUH gerði tillögu um að í kjörnefnd yrðu kosin Bessi Gíslason, Brynja Arthúrsdóttir, Sigtryggur Eyþórsson og Harpa Völundardóttir sem varamaður. Samþykkt samhljóða.

Samþykkt var að gera tillögu um að laun til stjórnarmanna yrðu óbreytt nema að upphæðin yrði uppfærð miðað við launavísitölu.
Samþykkt var að gera tillögu um óbreytt félagsgjöld.

7.  Önnur mál.

RMH gerði að umtalsefni dreifibréf sem að sent var í hefðbundnu letri til, að því er virðist allra félagsmanna í nafni „Velunnara Blindrafélagsins“. Dreifibréfið varði við lög vegna þess að það er nafnlaust,  engir ábyrgðarmenn eru skráðir og eins varði þetta við persónuverndarsjónarmið þar sem félagaskrá Blindrafélagsins innihaldi í raun heilbrigðisupplýsingar. Var samþykkt að fela framkvæmdastjóra að kalla eftir upplýsingum frá Íslandspósti um hverjir standa á bak við dreifinguna og leita álits lögmanns félagsins og eftir atvikum athuga með að kæra dreifinguna.

Þeirri athugasemd var beint til MH að það væri orðréttur texti úr pósti sem hún sendi á Blindlist fyrir nokkrum vikum í þessu bréfi. MH hafnaði því að eiga nokkurn hlut af þessari dreifingu.

Aðspurður sagði KHE að félagatal Blindrafélagsins hafi ekki verið afhent neinum frá því fyrir aðalfund 2014, en þá fengu Bergvin Oddsson og Rósa María Hjörvar afhent félagatalið til notkunar í formannskjöri.

RMH óskaði eftir því að skoðað yrði hvort að rétt væri að seinka bakhjarla-söfnun vegna þessa máls.

SUH gerði tillögu að eftirfarandi ályktunartillögu stjórnar vegna þessa dreifibréfs:

„Ályktun vegna dreifrits sem borið var út til félagsmanna Blindrafélagsins. 

Undanfarna daga hefur verið borið út til félagsmanna í Blindrafélaginu óundirritað dreifirit. Stjórn Blindrafélagsins áréttar það að þetta er ekki á vegum Blindrafélagsins og að í samræmi við tilmæli Persónuverndar hefur félagatalið ekki verið afhent neinum.  Stjórnin harmar jafnframt það að einhverjir ótilgreindir aðilar sem vilja kenna sig við Blindrafélagið geri slíkt. Dreifiritið er nafnlaust sem er andstætt ákvæðum prentlaga og á formi sem er óaðgengilegt stærstum hluta félagsmanna. Vinnubrögð sem þessi eru ekki viðkomandi til sóma né Blindrafélaginu til framdráttar.“

Var tillagan samþykkt samhljóða og framkvæmdastjóra falið að koma henni á framfæri á miðlum félagsins.

MH gerði athugasemd við að formaður hefði ekki svarað bréfi frá Arnþóri Helgasyni. SUH gerði grein fyrir að umræddu bréfi hafi verið ítarlega svarað af sér, RMH og KHE varðandi mál sem snéru að framkvæmdastjóra. Ásökunin væri því ekki á rökum reist.

SUH gerði tillögu um að fráfarandi stjórn myndi hittast í kvöldverði að aðalfundi loknum.

Fundi slitið kl 17:15

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.