Fundargerð stjórnar nr. 5 2020-2021

Fundargerð 5.  stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2020 – 2021, haldinn miðvikudaginn 10.2.2021 kl. 16:00.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ), ritari, Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir (ÁEG) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, (tekur sæti HÞA sem aðalmaður), Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA) og Kaisu Hynninen (KH) varaformaður.

Fundurinn var haldinn í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

1.     Fundarsetning.

SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

2.     Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 4. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum, var samþykkt samhljóða.

Önnur mál: SUH - Low Vision Song Contest.

3.     Inntaka nýrra félaga.

KHE las upp nöfn 11 umsækjenda og voru þær samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar.

4.     Skýrslur, bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

 • Samráðsfund  29. janúar.      
 • Stefnumótun og stefnuþing ÖBÍ.
 • Aðgengissjóður Reykjavíkur. 
 • Viðburðir framundan og mikilvægar dagsetningar.  

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

 • Bráðabirgða rekstrartölur Blindrafélagsins 2020.     
 • Fjáraflanir.     
 • Ferðaþjónustu Blindrafélagsins.       
 • Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og væntanlega   skuggaskýrsla um innleiðingu samningsins.
 • Fund með RÚV.          
 • Starfsmannamál.       
 • Nýjan forstjóra Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar.     
 • Teams námskeið.      

5.     Stefnuþing ÖBÍ.

Úr skýrslu formanns:
“Stefnuþing Öryrkjabandalags Íslands verður haldið föstudaginn 9. apríl kl.15.00-18.00 og laugardaginn 10. apríl kl. 10.00-17.00 á Grand hóteli og/eða á Zoom.  Áherslur á stefnuþinginu verða á stefna Öryrkjabandalagsins næstu árin.

Blindrafélagið hefur þátttökurétt fyrir 6 fulltrúa á stefnuþingið og 6 til vara.  Skráningarfrestur er til 1. mars og í framhaldi af því munu  gögn viðkomandi stefnuþinginu berast þátttakendum á rafrænu formi.

Í aðdraganda stefnuþingsins er farin í gang viðamikil stefnumótunarvinna og hefur Arnar Pálsson verið ráðinn til ráðgjafar um við þá vinnu.  Meðal annars verða haldnir 6 til 8 vinnufundir þar sem verða fulltrúar frá 5 til 6 félögum hverju sinni. Gert er ráð fyrir að hvert félag sendi 1 til 2 fulltrúa og hafa fulltrúi og framkvæmdastjórar félaganna nú þegar setið kynningarfund um stefnumótunarferlið.  Tilgangur fundanna verður að búa til vettvang fyrir aðildarfélög til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri gagnvart stefnumótunarvinnunni, benda á hvað hafi gengið vel síðustu ár, hvað hafi gengið síður og hvaða áherslur félögin hafa og vilja koma á framfæri.  Einnig verður gerð könnun þar sem kallað verður eftir afstöðu eða frekari upplýsingum frá aðildarfélögum og eftir atvikum öðrum hagsmunaaðilum.

Ég geri ráð fyrir að áherslupunkta fundaherferðarinnar og könnunin verði send út með hæfilegum fyrirvara þannig að stjórn geti kynnt sér atriðin þegar þar að kemur.“

SUH gerði það að tillögu sinni að fulltrúar Blindrafélagsins á stefnuþinginu yrðu: Sigþór, Ásdís, Rósa, Baldur, Hlynur og Kristinn. Var sú tillaga samþykkt samhljóða.

6.     Félagsfundur.

SUH gerði að tillögu sinni að haldinn verði fjar félagsfundur fimmtudaginn 25 febrúar kl 17:00. Efni fundarins verði kynning á verkefnum aðgengisteymis Blindrafélagsins. Aðgengisteymið skipa Baldur, Hlynur og Eyþór.
Var tillagan samþykkt samhljóða.
Einnig var samþykkt að fela skrifstofunni að skipa fundarritara.

 Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.

Úr skýrslu framkvæmdastjóra:
„Mánudaginn 1. febrúar átti ég fund með tveimur stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra Hreyfils, að frumkvæði Hreyfils.  Tilefni fundarins var að óska eftir samstarfi við Blindrafélagið um að uppræta óheimila pöntun á ferðaþjónustubílum, þar sem að notendur panta með því að hringja beint í tiltekinn bílstjóra í stað þess að panta í gegnum símaverið eða appið, eins og samningur við notendur gerir ráð fyrir. Að undanförnu hefur verið aukning á þessu sem má meðal annars rekja til þess að bílstjórar sem fyrir Covid vildu ekki keyra fyrir ferðaþjónustu Blindrafélagsins hafa núna skráð sig í hana.

Að sögn Hreyfilsmanna þá eru 10% leigubílstjóranna að taka um 30% ferðanna í gegnum símhringingar beint til bílstjóra. Dæmi er um að ferðir tiltekinna notenda hafi allt að því tvöfaldast í verðir þegar að notandinn fór að panta ferð með því að hringja alltaf í sama bílstjórann.

Í 1. grein samnings sem að allir notendur þurfa að skrifa undir segir:

„Notandi skal panta akstur í ferðaþjónustunni hjá stjórnstöð Hreyfils í símanúmerið 588 5522 eða í gegnum Hreyfils appið. Við pöntun skal tilgreina að pöntunin sé vegna Ferðaþjónustu Blindrafélagsins.

Í ljósi þess að málefnalegar ástæður geta legið fyrir því að notandi þarf á því að halda að geta notast við sama bílstjórann, þá hefur Hreyfil fallist á að fjalla um umsóknir þar sem sótt er um að fá að notast við einkabílstjóra. Slíkar rökstuddar umsóknir skulu sendar á skrifstofu  Blindrafélagsins sem sendir þær áfram á Hreyfil. Hreyfill áskilur sér rétt á að hafna slíkum umsóknum eða breyta því hvað bílstjóra er úthlutað verkefninu,  í samræmi við innanhús reglur sem Hreyfill hefur sett sér.

Samþykkt var að skrifstofan skyldi óska eftir upplýsingum um þá notendur sem að eru að panta bíla án þess að gera það samkvæmt ákvæðum notendasamningsins og minna þá á að þeim beri að panta í gegnum símaver eða appið, nema í þeim tilvikum sem að leyfi hafi fengist hjá Hreyfli fyrir því að hringja beint í tiltekinn bílstjóra.  

7.     Önnur mál

SUH vakti athygli á Low Vision Song Contest á vegum EBU. Ákveðið að fela Hlyn að skoða hvort þetta sé eitthvað stefna ætti að því að taka þátt í.

Fundi slitið kl. 17:20.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.