Strætó skoða NaviLens fyrir biðstöðvar.

Mynd af hvernig NavilEns gæti veirð notað á upplýsingartöflur Strætó

Strætó hafa með aðkomu Blindrafélagsins skoðað þann möguleika að setja upp NaviLens merki á biðstöðvar og vagna félagsins. Endanlega ákvörðun hefur ekki verið tekin um málið, en lausnin þykir spennandi og löngu tímabært skref í að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að upplýsingum um komutíma vagna Strætó.

Síðustu ár hefur almennt aðgengi að biðstöðvum verið bætt með leiðarlínum og áherslumerkingum. Aðgengi að upplýsingum hefur hins vegar verið af skornum skammti fyrir þau sem ekki sjá. Verði tilkoma NaviLens merkjanna að veruleika yrði það gífurlegt framfaraspor í aðgengi að upplýsingum um ferðir strætisvagna, án efa það stærsta síðan hljóðkerfi var sett upp í vögnunum fyrir rúmum 10 árum síðan, sem gefur til kynna hvar vagninn stoppar næst.

NaviLens kóðari virka á svipaðanhátt og QR kóðar. Hins vegar er hægt að greina NaviLens kóða úr 12 sinnum meiri fjarlægð en QR kóða. Einnig virka NaviLens merki betur í minni birtu og hægt er að nota allt sjónsvið myndavéla snjalltækja til að greina þá, ólíkt QR kóðunum sem krefjast meiri nákvæmni. Notendur nota síðan NaviLens app til að fá upplýsingar um staðsetningu og fjarlægð frá kóðanum auk þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma. Þannig virkar NaviLens bæði að staðsetja biðstöðvar og fá upplýsingar um hvaða leiðir ganga þar og hve langt er í næsta vagn.

Ef merki yrðu einnig sett á strætisvagnana sjálfa myndi það hjálpa blindum og sjónskertum að vita um hvaða vagn er að ræða án þess að þurfa að reiða sig á aðstoð annarra.

Strætó hefur einnig verið að vinna að nýrri og endurbættri vefsíðu þar sem eitt af helstu markmiðunum var bætt aðgengi blindra og sjónskertra. Blindrafélagið hefur komið að þeirri vinnu sem ráðgefandi aðili og er því allt útlit fyrir að nýr vefur Strætó muni geta talist aðgengilegur blindum og sjónskertum. Verkefnið er nokkuð flókið, þar sem þarf að koma fyrir miklu magni af upplýsingum á einfaldan og aðgengilegan hátt.