Eftir hverju erum við að bíða?

Aðgengi allra að opinberum vefsvæðum og smáforritum er ekki tryggt samkvæmt íslenskum lögum eins og þau eru í dag. Það þýðir til dæmis að ef innskráning á vef ríkisstofnunar er með þeim hætti að blindur einstaklingur sem notast við skjálestur getur ekki komist inn, þá eru engin lög sem krefja viðkomandi stofnun um úrbætur eða hún beitt dagsektum eða öðrum úrræðum sem hvetja til úrbóta. Þannig er það því löglegt fyrir ríki og sveitarfélög að bjóða upp á þjónustu sem sumir geta nýtt sér en ekki aðrir, allavega ekki án aðstoðar.

Aðgengistilskipun fyrir opinber vefsvæði og smáforrit tók gildi innan ríkja Evrópusambandsins þann 23. september 2019. Alþingi hefur samþykkt tilskipunina í gegnum EES samstarfið og Blindrafélagið ásamt fleirum hefur gengið á eftir því að tilskipunin verði innleidd. Þau svör sem bárust á sínum tíma voru að Noregur hafi komið með breytingatillögur og Ísland myndi bíða eftir niðurstöðu þeirra.

Noregur samþykkti síðan umrædda tilskipun 28. maí 2021 og mun hún taka gildi 1. janúar 2023. Þar að auki áætla Norðmenn að önnur aðgengistilskipun, European Accessibility Act (EAA), verði hluti af norskum lögum árið 2022.

Dæmi sýna að núverandi reglur Noregs, sem innihalda refsiákvæði og viðurlög við brotum, hafa orðið til þess að ýmsar villur og ágallar hafa verið lagaðir á skömmum tíma, til þess að forða viðkomandi stofnun frá dagsektum. Nýlega var greint frá því að Háskólinn í Bergen hafi verið sektaður um 150.000 norskar krónur fyrir að laga ekki villur sem fundust í stafrænum próflausnum skólans.

Nú er því ljóst að Ísland þarf ekki lengur að bíða eftir Norðmönnum, svo eftir hverju erum við að bíða?

Hlekkur á tilskipun ESB um aðgengiskröfur á opinberum vefjum.

Hlekkur á tilskipun ESB um eftirlit með aðgengi á opinberum vefjum og öppum

Hlekkur á upplýsingasíðu Norðmanna um aðgengiskröfur, núgildandi og framtíðar lög og reglur

Hlekkur á frétt um sektun Háskólans í Bergen