Fundargerð stjórnar nr. 4. 2018-2019

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Hjalti Sigurðsson (HS) ritari,  Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður (símasambandi), Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri. 

1.       Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum.

2.       Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 3. fundar, sem send var stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

Fundargerð 16. fundar var send stjórnarmönnum seinustu stjórnar. Engar athugasemdir bárust og telst fundargerðin því samþykkt.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Ekki lá fyrir skrifleg skýrsla frá formanni. Munnlega gerði formaður grein fyrir fundi hjá ÖBÍ sem hann sótti um skuggaskýrslu við Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Viðhaldsframkvæmdir utan húss.
  • Rekstrarafkoma Blindrafélagsins fyrstu sex mánuði ársins.
  • Víðsjá
  • Drög að persónuverndaryfirlýsingu Blindrafélagsins.
  • Erfðagjöf.
  • Leiðsöguhundaverkefnið.
  • Handy – Friendly aðgengislausnir.

 

Erindi:
Engin erindi lágu fyrir.

4.       Inntaka nýrra félaga.

Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.

5.       Rekstraryfirlit Blindrafélagsins.

KHE gerði grein fyrir rekstrarafkomu félagsins fyrir tímabilið janúar til og með júní 2018 sem var
mjög góð.

Rekstrartekjur námu 123 mkr. sem er 1,4 mkr  eða 1,14% undir áætlun. Inn í tekjurnar vantar ógreiddan styrk frá Reykjavíkurborg uppá 2,2 mkr sem hefði átt að greiðast á fyrri hluta ársins en vegna mistaka hjá borginni verður hann ekki greiddur fyrr en á síðari hluta ársins. Fyrir sama tíma í fyrra voru tekjurnar 119 mkr.

Rekstrargjöld eru 99,8 mkr sem 10,1 mkr eða 9,2% undir áætlun. Rekstrarafkoman fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDTA) er því jákvæð uppá 23,2 mkr. Áætlun gerir ráð fyrir 18 mkr. Fyrir sama tíma í fyrra var afkoman jákvæð uppá 6,7 mkr.

Frekari upplýsingar eru í sundurliðuðu rekstraryfirliti og ársreikningi fyrir fyrstu 6 mánuði ársins sem sent var stjórnarmönnum með fundargögnum.

Almenn ánægja var meðal stjórnarmanna með rekstrarafkomuna á fyrri hluta ársins.

6.       Aðalfundur ÖBÍ.

SUH gerði að tillögu sinni að eftirtaldir verði fulltrúar Blindrafélagsins á aðalfundi ÖBÍ sem haldinn verður föstudaginn 5. október, kl. 16.00-20.00 og laugardaginn 6. október 2018, kl. 10.00–17.00 á Hilton Reykjavik Nordica, Suðurlandsbraut 2, Reykjavík.

Aðalmenn:
Lilja Sveinsdóttir
Halldór Sævar Guðbergsson.
Rósa María Hjörvar.
Rúna Garðarsdóttir.
Sigþór U Hallfreðsson.
Þórarinn Þórhallsson.

Varamenn:
Baldur Snær Sigurðsson
Dagný Kristmannsdóttir
Kristinn Halldór Einarsson
Rósa Ragnarsdóttir.

Var tillagan samþykkt samhljóða.

7.       Leiðsöguhundar

KHE kynnti tilboðin sem nú liggja fyrir um kaup á leiðsöguhundum. Sænska tilboðið er um 1,3 mkr lægra fyrir alla 3 hundana. En kaupverð 3 hunda frá Svíþjóð er uppá 9 mkr en 10,3 mkr frá Noregi. Annar kostnaður við að fá hundana til landsins er áætlaður um 1,6 mkr.

Hundana frá Svíþjóð er hægt að afhenda nú í október en norsku hundana er ekki hægt að afhenda fyrr en næsta haust.

Fundur verður með ÞÞM fimmtudaginn 16. ágúst þar sem að boðnir verða 3 hundar frá Svíþjóð sem að afhentir verða í október. Full samstaða var innan stjórnarinnar um þetta.

Stjórnin samþykkti að taka hundana frá Svíþjóð og að þeir kæmu til landsins 15 – 17 október, sem er sá tími sem fengist hefur pláss á einangrunarstöðinni Móseli.

8.       Könnun á tíðni kynbundins ofbeldis.

Tómas Bjarnason frá Gallup kom á fundinn og kynnti uppfærðan spurningalista frá seinasta fundi fyrir könnun þar sem áformað er að spyrja félagsmenn Blindrafélagsins út í félagslega stöðu, tiltekna færni, sjálfstæði og hvort þeir hafi orðið fyrir neikvæðum samskiptum, einelti og/eða kynferðislegu áreiti. Jafnframt verði spurningar sem að snúa að almennri líðan sem eru samskonar og notaðar hafa verið í mælingum meðal almennings svo bera megi saman niðurstöðurnar.

Stjórn féllst á að SUH og KHE gengju frá endanlegum spurningalista með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að fram komu í umræðunum.

9. Önnur mál.

Engin boðuð.

Fundi slitið kl 18:00.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.