Fundargerð stjórnar nr. 3 2019-2020

Fundargerð 3. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 14. ágúst kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Hlynur Þór Agnarsson (HÞA) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Önnur mál: engin önnur mál

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerðir 2. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallaði um:

  • Aðalfund Almannaheilla, samtaka þriðja geirans.
  • Samstarfsverkefni um erfðafjárgjafir.
  • Heimsókn forseta Íslands og áttatíu ára afmæli Blindrafélagsins 19 ágúst.
  • Fræðsluerindaröðin.
  • Ráðstefnu um heilatengda sjónskerðingu CVI í október 2019.
  • UNK ráðstefnan 26 – 30 ágúst og NSK/NKK fundur.
  • Aðalfund EBU.
  • Mikilvægar dagsetningar.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • 80 ára afmæli Blindrafélagsins.
  • Rekstraryfirlit Blindrafélagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
  • Rekstur Blindravinnustofunnar fyrstu sex mánuði ársins.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Samningur við Félagsmálaráðuneytið um leiðsöguhundaverkefnið
  • Víðsjá.

Engin innsend erindi lágu fyrir.

4. Inntaka nýrra félaga.

Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.

5. Rekstraryfirlit fyrstu sex mánaða ársins.

Rekstrartekjur fyrstu sex mánuði ársins eru 121,1 milljónir króna, sem er 0,8% undir áætlun, Inn í tekjurnar vantar þjónustusamningsgreiðslur frá ríki og borg uppá 2 milljónir króna. Seldar vörur og þjónusta er 15,2 milljónir króna, sem er 4,3% yfir áætlun. Fjáraflanir eru 70,9 milljónir króna, sem er 5,5% yfir áætlun. Leigutekjur eru 28,6 milljónir króna, sem er 0,8% undir áætlun. Styrkir og þjónustusamningar eru 6,1 milljónir króna sem er 31,5% undir áætlun.

Rekstrargjöld eru 111.5 milljónir króna, sem er 1,7% yfir áætlun.

Kostnaðarverð seldra vara er 4,4 milljónir króna, sem er 9% yfir áætlun. Launa og starfsmannakostnaður er 50,1 milljónir króna, sem er 0,7% yfir áætlun. Húsnæðiskostnaður er 10,6 milljónir króna, sem er 21,1% yfir áætlun. Skrifstofu og stjórnunarkostnaður er 13 milljónir króna, sem er 11,9% undir áætlun. Félags og mötuneytiskostnaður er 15 milljónir króna, sem er 24,5% yfir áætlun. Kostnaður vegna fjáraflanna er 17,4 milljónir króna, sem er 11,2% undir áætlun. Annar rekstrarkostnaður er 1,1 milljón króna, sem er á pari við áætlun.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð uppá 14,5 milljónir króna sem er 6,6% yfir áætlun. Rekstrarafkoma að meðtöldum afskriftum og fjármagnsliðum er 8,2 milljónir króna sem er 12% yfir áætlun.

Stjórn lýsti ánægju sinni með rekstrarniðurstöður tímabilsins.

6. 80 ára afmælisdagskrá Blindrafélagsins.

Undirbúningur fyrir dagskrá í tilefni af 80 ára afmæli Blindrafélagsins miðar vel.
Eftirfarandi fréttatilkynning hefur verið send fjölmiðlum, og mun verða send aftur.

Blindrafélagið 80 ára – Fréttatilkynning

Þann 19. ágúst næstkomandi verða liðin 80 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Af því tilefni mun Blindrafélagið bjóða til hátíðarsamkomu þann dag. Að auki mun félagið verða með dagskrá á Menningarnótt í Tjarnarsal ráðhússins sem sérstakur heiðursgestur Reykjavíkurborgar.

Hátíðarsamkoma 19 ágúst í tilefni af 80 ára afmæli Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.

Afmælisdagskrá Blindrafélagsins hefst á heimsókn forseta Íslands, Hr. Guðna Th. Jóhannessonar í Hamrahlíð 17, hús Blindrafélagsins. Forsetinn mun kynna sér starfsemina sem fram fer í húsinu fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga og fjölskyldur þeirra.

Síðar um daginn, klukkan 16:00, verður efnt til hátíðarsamkomu á Hótel Hilton Nordica. Á dagskrá verða ávörp frá forseta Íslands og formanni Blindrafélagsins Sigþóri U. Hallfreðssyni, Samfélagslampi Blindrafélagsins verður afhentur, Félags og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason skrifar undir samstarfssamning við Blindrafélagið um aðkomu ráðuneytisins að leiðsöguhundaverkefninu. Nokkrir framúrskarandi tónlistamenn meðal félagsmanna Blindrafélagsins munu sjá um tónlistarflutning á samkomunni.

Allir félagsmenn, bakhjarlar, stuðningsmenn og velunnarar Blindrafélagsins eru boðnir velkomnir á samkomuna á meðan húsrúm leyfir.

Til að geta gert nauðsynlegar ráðstafanir varðandi veitingar þá óskum við eftir því að þeir sem hyggjast mæta skrái sig í síma 525 0000 eða í afgreidsla@blind.is.

Menningar- og listadagskrá Blindrafélagsins á Menningarnótt í Tjarnarsal Ráðhússins.

Í tilefni 80 ára afmælis Blindrafélagsins verður Blindrafélagið sérstakur heiðursgestur Reykjavikurborgar á Menningarnótt og mun standa fyrir viðamikilli dagskrá í Tjarnarsal Ráðhússins frá kl 14:00 – 18:00.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur dagskránna klukkan 14:00. Formaður Blindrafélagsins, Sigþór U. Hallfreðsson fylgir henni úr hlaði og Iva Marín Adrichem syngur nokkur lög.

Að setningaathöfn lokinni taka við eftirfarandi viðburðir.

  • Myndlistarsýning þriggja félagsmanna Blindrafélagsins: Guðvarður B. Birgisson, Ólöf Valdimarsdóttir og Rut Rebekka Sigurjónsdóttir.
  • Kynning á leiðsöguhundum.
  • Kynning á hjálpartækjum fyrir blinda og sjónskerta.
  • Kynning á vörum Blindravinnustofunnar.
  • Þrautaganga um völundarhús með sjónskerðingargleraugum og hvítan staf.

Á meðan að þessir viðburðir eru í gangi munu eftirfarandi félagar Blindrafélagsins flytja tónlist á lágstemmdum nótum.

  • Kaisu Hynninen á flautu og saxafón og Eyþór Kamban Þrastarson á gítar.
  • Haraldur Gunnar Hjálmarsson á píanó.
  • Eyþór Kamban Þrastarson á harmonikku.
  • Theódór Helgi Kristinsson (Teddi) á píanó.

Tónleikar klukkan 16:15.

Klukkan 16:15 verður blásið til tónleika þar sem eftirfarandi félagsmenn í Blindrafélaginu koma fram og flytja eigin tónsmíðar.

  • Sölvi Kolbeinsson á saxafón með píanó undirleik Hlyns Þórs Agnarssonar.
  • Gísli Helgason og hljómsveit.
  • Hlynur Þór Agnarsson og hljómsveit.
  • Már Gunnarsson og hljómsveit.

Dagskrárlok eru áætluð um kl 18:00.

Hagsmunamál Blindrafélagsins á 80 ára afmæli félagsins.

Stuðningur til sjálfstæðis er meginstefið í öllu starfi Blindrafélagsins og á meðal mikilvægra hagsmunamála sem að Blindrafélagið leggur áherslu á núna á 80 ára afmæli félagsins eru:

  • Innleiðing Evrópsku aðgengistilskipunarinnar á Íslandi.
  • Ferðafrelsi leiðsöguhunda fyrir blinda til og frá landinu.
  • Að standa vörð um Hljóðbókasafn íslands og andmæla hugmyndum um að leggja það niður.

Á aðalfundi félagsins sem að haldinn var þann 11 maí síðastliðinn voru samþykktar ályktanir um þessi málefni sem lesa má á vefsvæðinu www.blind.is.

EKÞ lýsti andstöðu sinni við Þrautarbrautahugmyndina.

Samþykkt var að greiða kostnað vegna afmælisins úr Verkefnasjóði. Fjárhagsáætlun hljóðar uppá 2,5 milljónir króna.

7. Aðalfundur ÖBÍ.

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands verður sem haldinn verður föstudaginn 4. október 2019, kl. 16.00-20.00 og laugardaginn 5. október 2019, kl. 10.00–17.00 á Grand hótel Reykjavik, Sigtúni 38, Reykjavík.

SUH gerði að tillögu sinni að eftirtaldir yrðu fulltrúar Blindrafélagsins:

Aðalmenn:

  • Sigþór U Hallfreðsson
  • Halldór Sævar Guðbergsson.
  • Lilja Sveinsdóttir.
  • Eyþór K Þrastarson.
  • Þórarinn Þórhallsson.
  • Guðmundur Rafn Bjarnason.

Varamenn:

  • Hlynur Þór Agnarsson
  • Rósa Ragnarsdóttir.

8. Starfsáætlun stjórnar.

SUH lagði fram uppfærða starfsáætlun stjórnar Blindrafélagsins frá ágúst til desember 2019.

14. ágúst (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 3.
19. ágúst (mánudagur). Afmælishóf á Hótel Nordica klukkan 16:00 til 17:30.
24. ágúst (laugardagur). Afmælishátíð á Menningarnótt frá 14:00 til c.a. 19:00.
26. til 30 ágúst (mánudagur til fimmtudag). UNK ráðstefna í Svíþjóð.
30. til 31 ágúst (föstudag og laugardag) NSK/NKK fundur í Svíþjóð.
4. september (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 4.
6 til 8. september (föstudagur til sunnudags) RP-norden í Færeyjum.
13. september (föstudagur). Samráðsfundur stjórnar, nefnda og deilda.
25. september (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 5.
26. september (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 1.
4 til 5. október (föstudagur til laugardags) Aðalfundur ÖBÍ.
10 til 11. október (fimmtudag og föstudag) þemadagar um heilatengda sjónskerðingu CVI.
10. október (fimmtudagur). Alþjóðlegi sjónverndardagurinn.
15 október (þriðjudagur). Dagur hvíta stafsins.
16. október (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 6.
17. október (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 2.
28. til 30. október (mánudag til miðvikudag) EBU aðalfundur í Róm.
6. nóvember (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 7.
14 nóvember (fimmtudagur) Félagsfundur.
27. nóvember (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 8.
28. nóvember (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 3.
11. desember (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 9.

9. Önnur mál.

Fundi slitið kl. 18:05.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.