Hreyfill fær Samfélagslampa Blindrafélagsins 2012

Leigubílastöðin Hreyfill svf fékk Samfélagslampa Blindrafélagsins afhentan á degi Hvíta stafsins, 15 október, fyrir framúrskarandi þjónustu og samstarf við rekstur Ferðaþjónustu blindra, sem stuðlað hefur að stórauknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Samfélagslampa Blindrafélagsins er ætlað það hlutverk að vekja athygli á fyrirtækjum, stofnunum og/eða tilteknum aðgerðum eða verkefnum, sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Sæmundur K. Guðlaugsson framkvæmdastjóri Hreyfils veitir Samfélagslampa Blindrafélagsins viðtöku úr hendi formanns félagsins, Kristins Halldórs Einarssonar.

Í ár ákvað stjórn Blindrafélagsins að veita Hreyfli svf Samfélagslampann  fyrir framúrskarandi þjónustu og samstarf við rekstur Ferðaþjónustu blindra, sem stuðlað hefur að stórauknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga. Í könnun sem að Capacent Gallup gerði fyrir Blindrafélagið kom í ljós að félagsmenn Blindrafélagsins líta á ferðaþjónustu úrræði sem lang dýrmætasta þjónustuúrræði sem þeim stendur til boða. Að sögn Kristins Halldór Einarssonar formanns Blindrafélagsins, er ekkert eitt þjónustuúrræði sem ræður jafn miklu um hvort að blindir eða sjónskertir einstaklingar einangrast eða eiga þess kost á að vera  samfélagslega virkir, og ferðaþjónustuúrræði. Því miður þá eru ekki öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að bjóða fullnægjandi ferðaþjónustuúrræði samkvæmt lögum bætti Kristinn við. Sæmundur Kr. Sigurlaugsson framkvæmdastjóri Hreyfils veitti Samfélagslampanum viðtöku við athöfn í húsi Blindrafélagsins á degi Hvíta stafsins,15 október.

Samfélagslampi Blindrafélagsins

Samfélagslampi Blindrafélagsins er einstakur gripur, handsmíðaður af  Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.

Samfélagslampinn var í fyrsta sinn afhentur á 70 ára af mæli Blindrafélagsins, þann 19 ágúst 2009. Þá var lampinn veittur tveimur aðilum: Bónus verslunarkeðjunni, fyrri áralangt traust viðskiptasamband við Blindravinnustofuna og Reykjavíkurborg fyrir ferðaþjónustu blindra í Reykjavík. Árið 2010 voru það Alþingi Íslendinga og Blindravinafélag Íslands sem fengu lampann. Alþingi fyrir fagleg vinnubrögð við setningu laga um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Blindravinafélagið fyrir áratuga stuðning við hagmuni blindra og sjónskerta einstaklinga. Árið 2011 var Samfélagslampinn veittur Lions á Íslandi fyrir mikilvægan stuðning á undanförnum árum, við leiðsöguhunda- og talgervla verkefni Blindrafélagsins.