Blindrafélagið á tímum COVID-19

Uppfært 24.3.2020: Mötuneytinu í Hamrahlíð 17 hefur einnig verið lokað.

Faraldur COVID-19 af völdum nýrrar kórónaveiru breiðist hratt út. Staðfest er að veiran smitast milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands. Í ljósi þessa hefur embætti ríkislögreglustjóra lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna COVID-19.

Vefsíðan: Það sem þú þarft að vita

Í þeim tilgangi að taka virkan þátt í almannavörnum og fara að framsettum tilmælum þá hefur á vettvangi Blindrafélagsins verið grípið til eftirfarandi aðgerða:

  • Aukið umtalsvert við starfsemi trúnaðarmanna félagsins svo trúnaðarmenn geti verið í símasambandi við fleiri félagsmenn, fylgst með velferð þeirra, veitt þeim jafningjastuðning og boðið þeim aðstoð sem þurfa.
  • Félagsstarfi á vegum félagsins hefur verið aflýst um óákveðinn tíma.
  • Afgreiðslu, skrifstofu og verslun hefur verið lokað. Eftir sem áður verður hægt að vera í síma og tölvusambandi við félagið og starfsmenn þess.
  • Útleiga á herbergjum og íbúðum í skammtímaleigu í eigu félagsins í Hamrahlíð 17 hefur verið stöðvuð um óákveðinn tíma.
  • Mötuneytinu í Hamrahlíð 17 hefur verið lokað.

Allar miða þessar aðgerðir að því að verja eftir fremsta megni heilsu félaga og starfsfólks Blindrafélagsins og vinna gegn útbreiðslu veirunnar um leið og félagið tekur virkan þátt í almannavörnunum.

Félagsmenn eru minntir á Vefvarp Blindrafélagsins þar sem fluttar eru fréttir af félaginu auk þess sem Vefvarpið veitir aðgang að afþreyingarefni eins og hljóðbókum frá Hljóðbókasafni Íslands. Hægt er að fá leiðsögn um notkun vefvarpsins í gegnum síma.

Símaþjónusta verður opin áfram í síma 525 0000 milli klukkan 09:00 og 16:00 alla daga nema föstudaga, en þá lokar símaþjónustna klukkan 15:00. Einnig er hægt að hafa samband með tölvupósti á netfangið blind@blind.is og í gegnum Facebook síðu félagsins.

Við bendum félagsmönnum á að fylgjast vel með tilkynningum frá embætti ríkislögreglustjóra, sóttvarnalækni og embætti landlæknis í fjölmiðlum og fara eftir leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra.

Um leið og starfsemi Blindrafélagsins kemst í eðlilegt horf verður það auglýst í öllum miðlum félagsins.