Vegna rafhlaupahjóla í útleigu

Síðan útleiga á rafhlaupahjólum hófst hérlendis hefur Blindrafélagið verið í reglulegu sambandi við leigurnar sjálfar sem og opinbera aðila til að minnka þá slysahættu sem myndast þegar þau eru skilin eftir um hvippinn og hvappinn. Þetta er ekki vandamál sem er bundið við Ísland heldur er þetta vandamál sem önnur félög blindra og sjónskertra erlendis hafa þurft að glíma við.
 
Stærsti aðilinn á markaðnum „Hopp“ ætlar fljótlega að hefja markaðsherferð til að minna notendur sína á að leggja hjólunum við vegkant þannig að þau séu hvað minnst fyrir.
 
Afstaða aðgengisfulltrúa er þó sú að það markaðsátak eitt og sér sé ekki nóg. Ég vil meina að það þurfi að grípa til sekta samhliða markaðsherferð. Með því að fá sekt einu sinni þá mun það minnka líkurnar að notandi leggi aftur illa. Í Hopp appinu er fjöldi tækifæra til að koma þessu áleiðis til notenda og þeir látnir samþykkja skilmála áður en leiga hefst.
 
Það er að öllu leyti óboðlegt að blindir og sjónskertir, og í raun allir, geti ekki farið leiðar sinnar gangandi án þess að eiga á hættu að hrasa um illa lögð hjól, sem í raun enginn virðist bera ábyrgð á.
 
Til glöggvunar fylgir hér lýsing á hvernig þessi hjól eru notuð.
 
Notandi finnur staðsetningu rafhlaupahjóls í appi á símanum. Síðan er gengið upp að hjólinu og síminn borinn upp að QR kóða sem aflæsir þannig hjólinu. Notandi fer því næst leiðar sinnar á hjólinu. Þegar á áfangastað er komið segir notandinn upp leigunni í gegnum appið. Áður en uppsögn kemur til er notenda skylt að taka mynd af hjólinu og þar af leiðandi hvernig því er lagt. Leigufyrirtækið hefur ávallt upplýsingar um staðsetningu sinna tækja.
 
Þannig ættu myndirnar að geta virkað sem sönnunargögn fyrir sekt, eða sönnun þess að hjóli hafi verið lagt samkvæmt reglum ef til þess kemur.
 
Blindrafélagið ásamt Sjónstöðinni mun halda áfram samtalinu við þessi fyrirtæki.
 
Ef fólk hefur fleiri ábendingar þá er hægt að hafa samband við mig á netfangið hlynur@blind.is
 
Bkv.
Hlynur Þór Agnarsson
Aðgengis- og upplýsingafulltrúi