Yfirlýsing Blindrafélagsins til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um sameiningu Hljóðbókasafnsins (áður Blindrabókasafns Íslands)

Blindrafélagið hafnar áformum menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um sameiningu Hljóðbókasafnsins við Landsbókasafn Íslands, Háskólabókasafn og Kvikmyndasafn Íslands. Þessi áform munu grafa undan sérhæfðri þjónustu við blinda, sjónskerta og aðra prentleturshamlaðra einstaklinga. Þjónusta sem er hornsteinn jafnréttis til náms, upplýsingaaðgengis og menningarþátttöku blindra og sjónskertra á Íslandi.

Stjórn Blindrafélagsins hefur ekki fengið aðgang að þeim gögnum sem liggja til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins. Við viljum benda á eftirfarandi atriði:

Sýndarsamráð

Við höfum beðið ráðuneytið um aðgang að fýsileikaskýrslu sem lögð var til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins og sæti í starfshópi sem mótar framtíðarþjónustu safnsins. Hvorugt hefur verið veitt. Þó að Blindrafélagið hafi vissulega verið boðað til funda hjá ráðuneytinu var ljóst að ákvörðun hafi þegar verið tekin og ekkert tillit yrði tekið til okkar afstöðu. 

Upplýsingaskortur og samráðsleysið brýtur í bága við skuldbindingar stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Jafnrétti til náms og starfa

Þátttaka blindra og sjónskertra í vinnu og námi byggir á aðgengi að upplýsingum. Sérhver skerðing á þjónustu Hljóðbókasafnsins ógnar grunnforsendum menntunar og atvinnuþátttöku. Að veikja þjónustuna er jafnframt að veikja rétt til samfélagslegrar þátttöku á eigin forsendum.

Rangar forsendur

Hljóðbókasafnið er ekki safn í hefðbundnum skilningi heldur framleiðslueining sem umbreytir bókum í aðgengilegt form. Fullyrðingar um að þetta verkefni verði leyst af gervigreind eru óraunhæfar á meðan ekki hefur verið fjárfest í tækniinnviðum eða samið við rétthafa.

Þróun á Norðurlöndum er ekki samanburðarhæf við Ísland vegna smæðar málsvæðisins og notendahóps. Hér er ekki heldur til staðar aðgengislöggjöf eða styrkjaumhverfi sem tryggir almennt aðgengi að menningu.

Sjálfstæð og sérhæfð þjónusta sparar samfélaginu kostnað með minna brottfalli úr námi, aukinni atvinnuþátttöku og minni félagslegri einangrun.

Áherslur Blindrafélagsins

  • Að undirbúningur núverandi áforma verði stöðvaður.
  • Að Hljóðbókasafnið starfi áfram sem sérhæfð eining í samræmi við lögbundnar skyldur og ábyrgð.
  • Að hefja raunverulegt samráð með fulltrúum notenda um framtíð Hljóðbókasafnsins.

Hljóðbókasafnið er ekki aðeins bókasafn heldur innviður jafnréttis, lykill að menntun, upplýsingum og menningarþátttöku. Þeirri sérstöðu má ekki fórna.


Fyrir hönd stjórnar Blindrafélagsins,
Sigþór U. Hallfreðsson, formaður