Félagsfundur Blindrafélagsins haldinn miðvikudaginn 23. mars 2022

Félagsfundur Blindrafélagsins haldinn miðvikudaginn 23. mars 2022 klukkan 16:00. 
Fundarsetning 

Formaður félagsins, Sigþór U. Hallfreðsson, setti fund kl. 16:05 og bauð alla fundarmenn velkomna. „Það er betra að vita en halda“ sagði Sigþór í kynningu fundarins til að undirstrika af hverju félagið leggur í kannanir og verkefni eins og kynntar verða á fundinum. 

Kjör starfsmanna fundarins 

Samkvæmt tillögu formanns var Halldór Sævar Guðbergsson kjörinn fundarstjóri og Baldur Snær Sigurðsson fundarritari. 

Kynning fundargesta 

Alls voru 26 manns á fundinum í salnum ásamt 4 leiðsöguhundum. 1 var á Zoom og 3 voru að hlusta í Vefvarpinu, alls 30 persónur. 

Afgreiðsla fundargerðar seinasta félagsfundar 

Fundargerðin var lögð fram og samþykkt samhljóða.  

Kynning á niðurstöðu skoðanakönnun Gallup. 

Kristján Pétursson frá Gallup hélt kynningu á niðurstöðu skoðanakönnunar sem Blindrafélagið lét gera í nóvember 2021, og gerir reglulega meðal félagsmanna. Einnig var gerð skoðanakönnun um viðhorf félagsmanna til Hljóðbókasafns Íslands og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með sjón og heyrnarskerðingu (hér eftir kallað Sjónstöðin). 

Mikilvægasta hagsmunamálið meðal félagsmanna er bætt aðgengi að ferðaþjónustu, að geta komist á milli staða. Þetta hefur verið hvað mikilvægast fyrir félagsmenn undanfarin ár. Í öðru sæti er að auðvelda blindum og sjónskertum að búa einir, og í þriðja sæti eru auknir atvinnumöguleikar. 

Mjög mikil ánægja, eða um 90% félagsmanna eru mjög ánægðir með þjónustu Blindrafélagsins til félagsmanna. Frá því þessar mælingar hófust hefur þessi ánægja farið vaxandi milli ára og er gott merki um að félagið er ávallt að bæta sig. 

Farið var í smáatriðum í gegnum skýrsluna og meðal þess sem kom í ljós er t.d. að félagsmenn eru að nota meiri tæknilausnir í daglegu lífi en áður (eins og tölvur, snjallsíma, spjaldtölvur og fleira). Áhugi félagsmanna til leiðsöguhunda eykst reglulega og mikill áhugi á að fá leiðsöguhund. Vinnu þátttaka félagsmanna er svipuð og í síðustu mælingum, eða um 31,4%. Þátttaka félagsmanna í félagsstarfi eykst einnig milli ára sem er mjög jákvætt. Sjónstöðin er einn mikilvægasti þjónustuaðili við félagsmenn og þar á eftir Hljóðbókasafnið. 

Lilja Sveinsdóttir kom með fyrirspurn um hvort hægt væri að sjá hverjir væri að stunda bæði vinnu og skóla. Það er ekki metið í dag, en væri hægt að bæta því inn næst ef vilji er að greina það nánar. 

Oddur Stefánsson kom með fyrirspurn um af hverju hann var beðin um að taka þátt í könnuninni, þrátt fyrir að vera á bannlista hjá Þjóðskrá. Kristinn Halldór, framkvæmdarstjóri, svaraði fyrirspurninni og sagði að réttur félagsmanna til að taka þátt í svona könnunum og segja sína skoðun á málum, væri ríkari en að ekki fá að taka þátt. Þátttaka félagsmanna í könnuninni er frjáls. 

Halldór Sævar spurði hvort kannað hefði verið hvort og hvernig félagsmenn stundi íþróttir, líkamsþjálfun eða hreyfingu. Kristján svaraði að þetta er ekki mælt í dag en væri mjög gott að bæta þessu inn í næstu könnun. 

Gallup kannaði einnig viðhorf félagsmanna til Sjónstöðvarinnar og þjónustunnar sem þau veita, og 97,5% eru ánægð með þjónustuna. Þetta er mjög gott og afgerandi. Mestu máli skiptir fyrir félagsmenn sem sækja þjónustu hjá Sjónstöðinni eru hjálpartæki (hljóðspilari, stækkunargler, hvítir stafir og fleira), sjónfræðingar, tölvuráðgjöf og félagsráðgjöf.  

Gallup kannaði líka viðhorf félagsmanna til þjónustu Hljóðbókasafnsins. Á heildina litið eru um 97,6% ánægðir með þá þjónustu sem safnið er að veita. Það sem skiptir mestu máli fyrir notendur er að nýja bækur komi fljótt inn á safnið, og einnig úrval bóka sem safnið er að bjóða.   

Kynning á niðurstöðu stöðumat á þjónustu. 

Svanur Þorvaldsson hjá Intellecta hélt kynninguna á verkefninu stöðumat á þjónustu Blindrafélagsins, Hljóðbókasafns Íslands og Sjónstöðvarinnar við blint og sjónskert fólk á Íslandi með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og alþjóðlegum samningum. 

Farið var ýtarlega yfir skýrsluna sem hægt er að nálgast á heimasíðu Blindrafélagsins.  

Rósa Ragnars kom með athugasemd varðandi svokallað Ráðhús, sem væri ákveðið vefsvæði sem gæti verið nokkurskonar ráð og leiðbeinandi að þjónustuaðilum og upplýsingum. 

Oddur Stefánsson kom með athugasemd varðandi aðgengi og benti sérstaklega á heimasíðu Kópavogsbæ og slæmt aðgengi að henni og spurði hvert á að leita þegar ekkert er gert í aðgengismálum? Baldur Snær sagði að það er alltaf mikilvægt að fólk láti eigendur vefsvæða vita þegar aðgengi er ábótavant, en ef ekkert gerist er alltaf hægt að hafa samband við aðgengisteymi Blindrafélagsins til að fá aðstoð.  

Sigþór tók einnig undir það að allir félagsmenn þurfa að vera á vaktinni og mikilvægt að láta vita þegar það tekur eftir slæmu aðgengi. Einnig benti Sigþór á að sáttmáli sameinuðuþjóðanna um réttindi fatlaðs fólk er ekki orðinn löglegur enn, og einnig vantar innleiðingu Evrópusambandsins um aðgengismál hér á Íslandi, en ef þetta væri til staðar, væri lélegt aðgengi í raun ólöglegt. 

Kristinn Halldór framkvæmdarstjóri sagði frá verkefni aðgengisteymi félagsins þar sem verið er að gera reglulegar úttektir á mikilvægum þjónustu vefum sem félagsmenn þurfa að nota. Félagsmenn geta komið með ábendingar um vefsvæði sem þeir telja mjög mikilvæg fyrir sig og ættu heima í þessu verkefni. 

Önnur mál 

Þórarinn Þórhallsson minnti á vorfagnaðinn sem verður haldinn 8. apríl. Hörður G. Ólafsson verður skemmtikraftur kvöldsins og hvetur Þórarinn fólk að skrá sig. 

Lilja Sveinsdóttir tók til máls og skoraði á Sigþór U. Hallfreðsson að gefa kost á sér áfram sem formanni félagsins. Salurinn tók undir með lófaklappi. 

Fundarslit 

Sigþór þakkaði starfsmönnum og fundargestum fyrir góðan og lærdómsríkan fund.  

Fundarslit kl. 18:00