Forseti lofar bót og betrun.

Mynd af því þegar forseti Íslands og hr. Guðni Th. Jóhannesson og Sigþór U Hallfreðsson afhenda Hljó…
Mynd af því þegar forseti Íslands og hr. Guðni Th. Jóhannesson og Sigþór U Hallfreðsson afhenda Hljóðbókasafni Íslands (áður Blindrabókasafnið) og Ó Johnsen & Kaaber Samfélagslampa Blindrafélagsins. Mynd: Þórunn Hjartardóttir.

Í tilefni af 80 ára afmæli Blindrafélagsins heiðraði forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson félagið með heimsókn í Hús Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17 þann 19. ágúst sl. og flutti svo ávarp á hátíðarsamkomu félagsins á Hilton Nordica seinna sama dag.

Í heimsókninni í Hamrahlíð 17 kynnti forsetinn sér starfsemi félagsins, Blindravinnustofunnar og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu. Á meðan á heimsókninni stóð kom fram að heimasíða forseta embættisins, forseti.is, sé ekki aðgengileg blindum og sjónskertum. Forsetinn lagði sérstaklega áherslu á þetta atriði í ávarpi sínu seinna sama dag og sagði meðal annars:

"Á þeim 80 árum sem liðið hafa frá því að Blindrafélagið var stofnað hefur margt breyst. Hér hefur verið stiklað á stóru, stofnun Blindravinnustofunnar, bygging hússins glæsilega við Hamrahlíð sem var tekið í notkun 1961. Ég naut þess að ganga þar um ganga fyrr í dag og lærði um leið mikið. Lærði um það sem er vel gert. Lærði um það sem má gera enn þá betur. Til dæmis lærði ég það að heimasíða embættisins, forseti.is, getur verið betri. Það þarf ekki að kosta mikið, það er hægt að breyta hinu og þessu. Smávegis hér og smávegis þar, sem er kannski bylting fyrir aðra, bylting fyrir hina sjónskertu, bylting fyrir hina blindu. Þetta getum við gert."

Forsetinn undirstrikaði en fremur að það væri ekki illur vilji sem lægi á bakvið þann skort á aðgengi sem fatlaðir upplifa, heldur skilningsleysi og skortur á þekkingu. Það væri því nauðsynlegt að Blindrafélagið héldi baráttu sinni áfram og að samfélagið allt hlustaði á kröfur og ábendingar þess. Forsetin benti á að í öflugu samfélagi eiga allir einstaklingar að fá að njóta sín við störf og leik og að það væri okkar allra að hjálpast að við að ná því markmiði.