Fundargerð stjórnar nr. 17 2016-2017

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Rósa María Hjörvar (RMH) varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS) ritari, Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ) gjaldkeri (á Skype), Lilja Sveinsdóttir (LS) meðstjórnandi, Patrekur Andrés Axelsson (PAA) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi:  Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður, María Hauksdóttir (MH) varamaður

1.  Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu að dagskrá sem send hafði verið út með fundarboðinu, með þeirri viðbót að inn í dagskránna verði sett umfjöllun um að skýrsla um sorpflokkun í Hamrahlíð 17 sem send var út með fundargögnum.  Var tillagan samþykkt.

Lýst eftir öðrum málum: RMH

2.  Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 16. fundar, sem send hafði verið fundarmönnum fyrir fundinn var samþykkt. 

3. Skýrslur

Í skýrslu formanns var fjallað um:

        Siðareglur.  

        Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins gegn einelti.

        Viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi.

        Aðgengi að rafrænum bönkum.

        Hádegisspjall.

        Andleg vellíðan - fyrirlestraröð.

        Tillaga að leiðarlínu í anddyrinu á Hamrahlíð 17.

        Afhending þríkross til bakhjarls.

        Alþjóðlegur dagur aðgengis 11. mars.

        Er leiðin greið– málþing um aðgengismál.

        Biðskýli Strætó b.s. við Hamrahlíð.

        Fundur með Textalk.

        Af norrænu samstarfi.

        Af vettvangi EBU.

        Af vettvangi ÖBÍ. 

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

        Starfsmannamál.

        Húsnæðismál.

        Visal námskeið.

        Fjáraflanir.

        Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.

        Undirbúning aðalfundar.

        RIWC 2020

        Gunnar Hersir. 

4. Bréf og erindi.  

        Tilkynning um 7 nýja félagsmenn sem gengu í félagið í febrúar.

        Bréf frá Félagsráðgjafafélagi Íslands í tengslum við verkefnið „Raddir notenda“

5. Viðbragðsáætlun gegn kynferðisbrotum á vettvangi Blindrafélagsins.

SUH kynnti endanlega útgáfu á viðbragðsáætlun gegn kynferðisbrotum á vettvangi Blindrafélagsins með breytingatillögum nýskipaðs fagráðs.

Neðangreind tillaga var samþykkt samhljóða og verður áætlunin kynnt á félagsfundinum 16. mars 2017.   

Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins gegn kynferðisbrotum á vettvangi félagsins.

Á vettvangi Blindrafélagsins skal vera starfandi fagráð um meðferð kynferðisbrota, hér eftir nefnt fagráð. Stjórn Blindrafélagsins skipar í fagráðið sem hefur það hlutverk að styðja við þolendur.

Í þeim tilgangi að skapa aðstæður sem stuðla gegn því að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað á vettvangi Blindrafélagsins er mikilvægt að öllum sé það kunnugt að þolendur eigi stuðning fagráðs félagsins vísan. Fagráðið er ekki rannsóknaraðili.

Kvörtunum um kynferðisbrot skal beina til fagráðs á netfangið: fagrad@blind.is.

   Með hugtakinu kynferðisbrot í reglum þessum er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga.

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun. Kynferðisleg áreitni skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu og samskipta hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Hún er ekki gagnkvæm og ekki á jafnræðisgrundvelli.

   Innan Blindrafélagsins eiga þolendur kynferðislegs ofbeldis, sem kann að hafa átt sér stað innan félagsins, kost á að leita beint til fagráðs félagsins.

   Leiti þolandi til starfsmanna félagsins vegna kynferðisbrots á vettvangi félagsins skulu þeir leiðbeina þolanda við að vísa máli sínu til umfjöllunar hjá fagráði.

   Komi upp mál sem snúa að börnum (undir 18 ára), ber skv. gildandi lögum um tilkynningaskyldu nr. 80/2002 að vísa slíkum málum umsvifalaust til barnaverndaryfirvalda.

   Stjórn Blindrafélagsins skipar (þrjá) aðila í fagráð. Í því skulu vera fulltrúar af báðum kynjum og aðilar með menntun á sviði félagsráðgjafar, lögfræði og heilbrigðisgreina eða aðili með sambærilegan bakgrunn. Hlutverk fagráðs er að fjalla um þau mál sem vísað er til þess, leiðbeina þolanda og gera tillögu um viðbrögð til tilheyrandi aðila. Ákvörðun um viðbrögð og næstu skref eru alltaf að höfðu samráði við þolanda. Fagráð skipar einn úr sínum hópi til að vera formaður fagráðsins.

   Fulltrúi frá fagráði skal hafa samband við þolanda svo fljótt sem auðið er eftir að máli er vísað til fagráðs. Fagráð vinnur með þolanda og aðstoðar við að koma máli í viðeigandi farveg í fullu samráði við þolanda. Mæli lög ekki á annan veg er fagráði og öðrum þeim sem að málunum koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.

   Stjórn Blindrafélagsins er skylt að taka til umfjöllunar og úrskurða í málum sem fagráð félagsins hefur vísað til stjórnarinnar. Úrræði stjórnar taka óhjákvæmilega mið af stöðu geranda, þ.e. hvort hann er stjórnarmaður, starfsmaður, félagsmaður eða utanaðkomandi aðili  Eigi stjórnarmaður aðild að máli, sem meintur þolandi, gerandi eða trúnaðarmaður þolanda, skal hann víkja af fundi á meðan málið er tekið fyrir innan stjórnar. Það sama skal gilda ef almennar vanhæfisreglur eiga við um einhvern stjórnarmann.

  Þessar reglur eru settar og samþykktar af stjórn Blindrafélagsins 15. mars 2017. 

6. Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins í eineltismálum.

SUH lagði fram  tillögu að viðbragðsáætlun Blindrafélagsins í eineltismálum, sem var samþykkt samhljóða:

Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins í eineltismálum. 

Í samræmi við siðareglur Blindrafélagsins er ætlast til að félagsmenn og starfsmenn sýni hver öðrum kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin og meðvirkni félags- og starfsmanna í einelti er fordæmd.

Skilgreining Blindrafélagsins á hvað felst í einelti og kynferðislegu áreitni styðst við 3. grein reglugerðar nr. 1009/2015  „Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum“, 

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Við úrlausn eineltismála eru eftirfarandi meginreglur hafðar í huga:

        Ákvarðanir um málsmeðferð eru alltaf teknar í samráði við þolandann sem hefur alltaf síðasta orðið um það.

        Leitast verður við að koma í veg fyrir einelti með því að leysa úr ágreiningsmálum og árekstrum, sem valdið geta óþægindum og þróast yfir í einelti, án tafar og áður en þau þróast til verri vegar.

        Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti af sömu festu og einelti almennt.

        Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.

 Viðbrögð.

Félagsmaður eða starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni innan Blindrafélagsins skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið.  Næsti yfirmaður er í tilfelli almennra félagsmanna formaður eða varaformaður félagsins en framkvæmdastjóri í tilfelli starfsmanna.  Ef einhver þessar aðila á hlut að máli getur þolandi leitað til hvers sem er innan stjórnar.

Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti. Þörf þolanda fyrir bráðan stuðning er metin og hann veittur strax ef þörf er á.

Yfirmaður í samráði við þolanda ákveður hvert framhaldið verður. Þolandi getur valið á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.  Málum sem varða kynbundið áreiti eða kynferðislegt ofbeldi er beint til fagráðs Blindrafélagsins sbr. viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi.

Óformleg málsmeðferð.  Velji þolandi óformlega málsmeðferð felur það í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir eru ekki upplýstir um málið.

Formleg málsmeðferð.  Velji þolandi formlega málsmeðferð er gerð hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, SMS-skilaboð eða annað. 

Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun og fundin verður lausn sem m.a. getur falist í eftirfarandi:

a) Ef gerandi er starfsmaður félagsins:  Breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi og hann gæti líka verið færður til í starfi. Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi.

b) Ef gerandi er félagsmaður: Óskað verði eftir því að hann dragi sig út úr félagsstarfinu.

Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila að ákveðnum tíma liðnum og fylgst verður með samskiptum aðila málsins.

Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda. 

7. Siðareglur.

SUH gerði grein fyrir að ásíðasta aðalfundi hafi stjórn verið falið að móta siðareglur fyrir Blindrafélagið.  Þau drög sem nú liggja fyrir taka mið af skýrslu sannleiksnefndar, Stefnumóti Blindrafélagsins í maí 2016 og umræðum á síðasta félagsfundi.

Siðareglurnar eru settar fram í þrennu lagi:

        Siðareglum Blindrafélagsins sem ætlað er að ná til allra sem taka þátt í starfsemi Blindrafélagsins.

        Sértækar siðareglur kjörinna fulltrúa (stjórn, kjörnefnd, skoðunarmenn reikninga o.s.frv.) sem er ítarlegri en almennar siðareglur Blindrafélagsins.

        Sérstakar siðareglur fyrir starfsmenn Blindrafélagsins sem eins og siðareglur kjörinna fulltrúa ganga lengra en almennar siðareglur félagsins.

Eitt af því sem kom mjög skýrt fram á Stefnumóti Blindrafélagsins og í umræðum sem verið hafa um þörfina á siðareglum innan félagsins, var að það væri ekki nægilegt að setja siðareglur.  Það yrði einnig að setja fram viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til ef siðareglurnar eru brotnar.  Siðareglurnar innihalda því leiðbeinandi almenna reglu um viðbrögð við ætluðum brotum á siðareglunum en einnig hafa verið settar fram tvær sértækar viðbragðsáætlanir um hvernig brugðist er við kynferðislegu ofbeldi innan Blindrafélagsins og um viðbrögð ef upp kemur einelti.

Tillaga að siðareglum eru eftirfarandi:

Siðareglur Blindrafélagsins.
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi.
Gildi Blindrafélagsins.

Jafnrétti.

Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.

Sjálfstæði.

Stuðlar að virkni og ábyrgð.

Virðing.

Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.

Umburðalyndi.

Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

Siðareglur.

1. gr.

Tilgangur siðareglna.

Að veita Blindrafélaginu, félagsmönnum, stjórnendum, starfsfólki og sjálfboðaliðum, stuðning í hlutverki sínu við að vinna að heill félagsmanna í gegnum hagsmuna og réttindagæslu, þjónustu, félagsstarf og jafningjastuðning.

Að styrkja ímynd Blindrafélagsins, viðhalda og auka traust almennings á starfi félagsins með því að upplýsa um gildi og markmið sem móta starfið.

Að efla gegnsæi, góða stjórnarhætti og faglegt starf í þágu félagsmanna og almennings.

Að veita stjórn og starfsmönnum viðmið um breytni og þá faglegu ábyrgð sem á þeim hvílir umfram lagalegar skyldur.

2. gr.

Virðing.

Ábyrgð gagnvart hvert öðru.

Félagsmenn skulu halda tryggð við gildi félagsins, efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna af sér gott  fordæmi.

Félagsmenn skulu sýna hver öðrum virðingu og kurteisi í samskiptum og viðhafa yfirvegun og hóf í orðræðu um menn og málefni, bæði í ræðu og riti.  

Félagsmenn skulu sýna af sér háttvísi í framkomu. Ólíðandi hegðun eins og einelti og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er ekki liðin innan Blindrafélagsins.

3. gr.

Heilindi.

Ábyrgð gagnvart almenningi, fjölmiðlum og samfélagi.

Upplýsingar sem Blindrafélagið veitir skulu vera áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum upplýsingum til almennings.

Blindrafélagið starfar sjálfstætt að markmiðum sínum, með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, án þrýstings frá eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum.

Blindrafélagið skal hafa umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýna með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.

4. gr.

Ábyrg starfsemi.

Ábyrgð gagnvart styrktaraðilum, þjónustunotendum og samstarfsaðilum.

Blindrafélagið ber ábyrgð á starfi sínu og skal sýna þjónustunotendum, styrktaraðilum og öllum öðrum samstarfsaðilum bæði virðingu og trúnað.

Áreiðanlegar og skýrar upplýsingar eru veittar fúslega og án óþarfa tafa. Notendum þjónustu eru gefnar aðgengilegar upplýsingar um alla þætti og þeim auðveldað að nota hana.

Blindrafélagið mismunar ekki þeim sem félagið á í samskiptum við hvorki á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars sem er ólíkt með fólki.

Blindrafélagið misnotar ekki stöðu sína sem þjónustuveitandi eða úthlutunaraðili gæða og bregst ekki trausti þeirra sem til félagsins leita. 

5. gr.

Ábyrgir starfshættir.

Ábyrgð stjórnarmanna, starfsfólks og sjálfboðaliða.

Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar halda tryggð við gildi, markmið og orðstír Blindrafélagsins.

Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins nýta ekki trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til framdráttar.

Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins veita þjónustu og fyrirgreiðslu á faglegum forsendum en ekki vegna persónulegra tengsla eða vensla.

Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins virða störf annarra félaga og samtaka og kynna sig í krafti eigin starfs.

Stjórnarmenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar Blindrafélagsins sýna hver öðrum virðingu, samstarfsvilja og stuðning og stuðla að framgangi verkefna.

Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi félagsins.

  

Siðareglur kjörinna fulltrúa Blindrafélagsins.
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi.
Gildi Blindrafélagsins.

Jafnrétti.

Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.

Sjálfstæði.

Stuðlar að virkni og ábyrgð.

Virðing.

Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.

Umburðalyndi.

Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

Siðareglur kjörinna fulltrúa.

1. gr.

Markmið siðareglna.

Markmið þessara siðareglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem stjórn Blindrafélagsins ber að sýna af sér við störf sín fyrir hönd félagsins og upplýsa félagsmenn og aðra um kröfurnar sem gerðar eru til þeirra. Siðareglurnar gilda einnig um þá sem kjörnir eru til setu í nefndum eða til annarra ábyrgðastarfa hjá Blindrafélaginu.

2. gr.

Lög og reglur.

Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglugerðum og samþykktum Blindrafélagsins, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að gæta hagsmuna Blindrafélagsins og að setja almenna hagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa.

3. gr.

Góðir stjórnhættir.

Stjórnarmenn skulu ávallt hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnunarhátta í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja, upplýsta og málefnalega ákvarðanatöku og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn félagsins.

Stjórnarmönnum ber að sinna verkefnum sínum af trúmennsku og haga störfum sínum og málflutningi á þann veg að verkefni sem eru til úrlausnar innan stjórnar nái framgangi án óþarfa tafa.

Stjórnarmenn upplýsa eins og kostur er félagsmenn um störf sín og annað sem skiptir máli í rekstri Blindrafélagsins.

4. gr.

Umboð og háttvísi.

Stjórnarmenn skulu koma fram af háttvísi og gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Blindrafélagsins og hlutverk starfsmanna félagsins. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn aðhafist nokkuð sem hefur þann tilgang að verða stjórnarmanni til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.

Stjórnarmenn sýna hver öðrum, félagsmönnum, viðskiptavinum og starfsmönnum félagsins fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

5. gr.

Misbeiting valds.

Stjórnarmenn mega ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgir stjórnarsetunni í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið beinna eða óbeinna persónulegra hagsbóta. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða hjálpa öðrum að gera það.

6. gr.

Trúnaður og virðing.

Stjórnarmenn gæta þagmælsku um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um, vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum og eðli máls. Trúnaðarskylda helst eftir að kjörtíma lýkur.

Stjórnarmönnum ber jafnframt að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum stjórnar Blindrafélagsins sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að og trúnaður skal vera um.

Stjórnarmenn virða einkalíf og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem til stjórnar leita með sín málefni með þagmælsku um persónulega hagi þeirra og með því að upplýsa þá eftir bestu getu um möguleg úrræði.

7. gr.

Ábyrg meðferð fjármuna og ráðsmennska.

Stjórnarmönnum ber að gera og virða fjárhagsáætlun Blindrafélagsins og sýna ráðdeild við meðferð fjármuna og eigna félagsins.

8. gr.

Stöðuveitingar.

Stjórnarmenn gæta þess þegar þeir koma sjálfir að ákvörðun um val á starfsmönnum, að leggja til grundvalla faglegar forsendur og hæfni til að rækja starfið og að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.

9. gr.

Hagsmunaárekstrar/hæfi.

Stjórnarmenn nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna, eða annarra sem þeim eru tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Blindrafélagið lýkur. Stjórnarmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Ef stjórnarmaður á beinna eða óbeinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem kemur til umfjöllunar skal hann gera grein fyrir þeim og ef vafi leikur á hæfi hans eru greidd atkvæði um það. Um hæfi stjórnarmanna við meðferð einstakra mála er farið eftir 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

10. gr.

Gjafir og fríðindi.

Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir eða önnur fríðindi frá félagsmönnum og viðskiptavinum Blindrafélagsins, eða þeim sem leita eftir verkefnum eða þjónustu félagsins, þannig að túlka megi þær sem persónulega þóknun eða greiða fyrir ákvarðanir á vegum stjórnar eða nefnda/ráða.

11. gr.

Málsmeðferð vegna ætlaðs brots.

Komi fram ábending eða grunur um að kjörinn fulltrúi hafi brotið siðareglurnar tekur stjórn málið til umfjöllunar. Telji stjórn að um brot sé að ræða getur hún samþykkt að ávíta viðkomandi fyrir brotið.

Við málsmeðferð skal þess gætt að virða andmælarétt og leita sátta. Telji stjórn sér ekki fært að skera úr um málið getur hún leitað utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar.

Stjórnarmanni ber að taka hagsmuni og orðstír Blindrafélagsins fram fyrir sína eigin og draga sig í hlé frá stjórnarstörfum á meðan mál er til rannsóknar ef um alvarleg brot á siðareglum er að ræða og eins ef hann sæti opinberri rannsókn vegna alvarlegs lögbrots.

12. gr.

Endurskoðun og miðlun siðareglna.

Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í stjórn Blindrafélagsins við upphaf kjörtímabils hverra stjórnar og endurskoðaðar ef þörf þykir á.

Stjórnarmönnum ber að undirgangast og tileinka sér siðareglurnar og staðfesta með samþykki sínu að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi.

Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi félagsins.

Siðareglur stjórnenda og starfsmanna Blindrafélagsins.
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi.
Gildi Blindrafélagsins. 

Jafnrétti.

Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.

Sjálfstæði.

Stuðlar að virkni og ábyrgð.

Virðing.

Elur af sér viðurkenningu og réttsýni.

Umburðalyndi.

Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

Siðareglur stjórnenda og starfsmanna. 

1. gr.

Markmið siðareglna.

Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem starfsmönnum Blindrafélagsins ber að sýna við störf sín á vegum félagsins.  Með starfsmanni er hér átt við stjórnendur, almenna starfsmenn og undirverktaka sem taka að sér verkefni fyrir hönd félagsins sem Blindrafélagið hefur stjórnunarlega ábyrgð á.

2. gr.

Lög og reglur.

Starfsmanni ber að gæta þess í störfum sínum að fylgja lögum, reglum og samþykktum Blindrafélagsins sem við eiga sem og sannfæringu sinni. Honum ber að gæta hagsmuna Blindrafélagsins og að setja almennahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er sínum eigin, annarra einstaklinga eða einstakra hópa.

3. gr.

Ábyrgð í samskiptum.

Starfsmanni ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni og veita þeim sem til hans leitar aðstoð og leiðbeiningar.

Starfsmanni ber að sýna samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. 

4. gr.

Ráðdeild í fjármálum.

Starfsmanni ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á fjármunum Blindrafélagsins. Við störf sín skal hann ekki aðhafast neitt sem getur falið í sér misnotkun á eignum og fjármunum félagsins.

Starfsmenn skulu virða eftirlit og úttektir, sem framkvæmdar eru af skoðunarmönnum og endurskoðendum félagsins og leggja sitt af mörkum til þess að markmið þess náist.

5. gr.

Trúnaður.

Starfsmenn skulu gæta þagmælsku og trúnaðar um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Trúnaðarskylda helst þótt látið sé af störfum.

6. gr.

Stöðuveitingar.

Starfsmönnum sem koma að mannaráðningum ber að gæta þess að þegar skipað er í stöður verði einstaklingum ekki veitt starf eða stöðuhækkun hjá Blindrafélaginu á öðrum forsendum en hæfni til að rækja starfið og að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.

7. gr.

Hagsmunaárekstur.

Starfsmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar starfsmaður á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá félaginu, skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram og ákvörðun tekin.

8. gr.

Gjafir og fríðindi.

Starfsmenn þiggja ekki gjafir, sem túlka megi sem persónulega þóknun fyrir greiða eða ívilnun, frá félagsmönnum og viðskiptavinum Blindrafélagsins eða þeim sem leita eftir þjónustu eða verkefnum hjá félaginu.

9. gr.

Miðlun og endurskoðun.

Siðarreglur starfsmanna Blindrafélagsins hvers tíma skulu vera hluti af starfsskyldum þeirra og ber starfsmönnum að tileinka sé þær.

Siðareglur þessar eru kynntar starfsmönnum á starfsmannafundum og skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Blindrafélagsins.

Siðarreglurnar skulu teknar til umræðu í stjórn í upphafi hvers kjörtímabils og endurskoðaðar ef þörf þykir.

6. gr.

Ábyrg fjármál.

Meðferð fjármuna, endurskoðun, upplýsingagjöf, fjáraflanir.

Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga er í höndum kjörinna skoðunarmanna og löggiltra endurskoðenda.

Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru settar fram á skýran og aðgengilegan máta í ársreikningum félagsins.

Blindrafélagið er ráðvant og tekur ekki við styrkjum frá aðilum sem með framgöngu sinni eða starfsemi, vinna gegn baráttumálum félagsins.

Blindrafélagið aflar ekki fjár með ósiðlegum hætti og ávallt er skýrt til hvers fjár er aflað og tilskilin leyfi fyrir fjáröflunum fengin.

Stjórnarmenn, starfsfólk og  sjálfboðaliðar gæta ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.

7. gr.

Siðrof.

Málsmeðferð vegna ætlaðs brots.

Vakni grunur um eða verði ljóst að siðareglur þessar hafi verið brotnar má hver sem þess verður var, tilkynna það til stjórnar Blindrafélagsins. Erindi um brot á siðareglunum má aldrei bitna á sendanda þess og stjórn getur ákveðið að sendandi erindis njóti nafnleyndar.

Stjórn skal leita skýringa og frekari upplýsinga eftir því sem tilefni er til. Málsmeðferð skal haga í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð. Sá sem sakaður er um að hafa brotið siðareglur þessar skal ávallt eiga þess kost, meðan mál hans er til umfjöllunar, að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og upplýsingu.

Ef stjórnarmaður á hlut að máli og ef málavextir gefa tilefni til getur stjórn leitað til óháðs sérfræðings/sérfræðinga til að gefa ráðgefandi álit á því hvort siðareglur hafi verið brotnar. 

Brjóti félagsmaður, stjórnarmaður, starfsmaður eða sjálfboðaliði Blindrafélagsins gegn siðareglum þessum skal hann í samráði við stjórn Blindrafélagsins bæta fyrir brotið eins og hægt er með því að birta, leiðrétta upplýsingar eða gera aðra þá bragarbót sem þurfa þykir.

8.gr.

Miðlun siðareglna.

Birting, umræður og endurskoðun.

Starfsmönnum og sjálfboðaliðum Blindrafélagsins, þar með talið stjórnar- og nefndarmönnum, eru kynntar þessar reglur í upphafi starfs síns fyrir félagið.

Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu í stjórn Blindrafélagsins við upphaf kjörtímabils hverra stjórnar og endurskoðaðar ef þörf þykir á.

Siðareglunar eru birtar á heimasíðu félagsins www.blind.is og í vefvarpi félagsins.

8. Félagsfundur Blindrafélagsins.

SUH gerði grein fyrir félagsfundi Blindrafélagsins sem haldinn verður fimmtudaginn 16. mars kl 17:00. En aðalefni fundarins verður að staðfesta siðareglur  Blindrafélagsins, kynna siðareglur stjórnar og starfsmanna, hleypa af stokknum og kynna aðgerðaráætlanir gegn kynferðisbrotum og einelti. Stjórn gerir tillögu að Hlyni Þór Agnarssyni sem fundarstjóra og Gísla Helgasyni sem fundarritara. Fundurinn verður sendur út í beinni útsendingu í vefvarpi Blindrafélagsins.

9. Sorpflokkur í Hamrahlíð 17

SUH fór lauslega yfir skýrslu um ástand á sorplosunar og flokkunarmálum í Hamrahlíð 17, en skýrslan var send stjórnarmönnum fyrir fundinn. Var framkvæmdastjóra falið að koma með tillögur að því að auka möguleika íbúa og fyrirtækja til flokkunar.

10. Önnur mál.

RMH spurðist fyrir um það hvort að möguleikar væru á því að Blindrafélagið hefði forgöngu um að íslenska vefþulan yrði sett upp á Wikipedia. Samþykkt var að skrifstofan tæki að sér að kanna málið.

Fundi slitið kl 18:30 og þakkaði formaður fyrir uppbyggilegan og góðan fund.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.