Fundargerð stjórnar nr. 17 2019-2020

Fundargerð 17. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn þriðjudaginn 28. apríl kl 11.00.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA). 

1. Fundarsetning.

SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

Önnur mál: Engin boðuð.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 16. fundar, sem send var stjórnarmönnum strax eftir fundinn og einnig fyrir þennan fund, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

  • COVID19 veiran.
  • Aðalfundur 2020.
  • Úthlutun úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins,  Stuðningi til Sjálfstæðis.    
  • Mikilvægar dagsetningar - frestun viðburða.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Ársreikningar Blindrafélagsins 2019.
  • Fjáraflanir.
  • Samningur við VMST um rekstur Blindravinnustofunnar.
  • Húsnæðismál.
  • Covid-19 og skrifstofan.
  • RIWC 2020.        

Húsnæðismál:
Samþykkt erindi Augnlækna Reykjavíkur um að fella niður hálfs mánaðahúsaleigu vegna Covid-19 faraldursins.

Húsnæðismál:
Samþykkt var að eftirfarandi viðhalds framkvæmdir yrðu fjármagnaðar af Verkefnasjóði:
Skipt um gólfefni hjá Augnlæknum.                     2.780.023 kr.
Lýsing á svölum og utandyra.                              1.979.177 kr.
Merking á tröppunefum.                                          476.433 kr.
Samtals:                                                               5.235.973 kr.

Samþykkt var að Blindrafélagið myndi greiða umsjónarmönnum Opins húss sem að nemur eins mánaðar umsjón með Opnu húsi.

4. Aðalfundur Blindrafélagsins.

SUH gerði grein fyrir að samkvæmt 8. grein í lögum Blindrafélagsins þá bæri að halda aðalfund félagsins fyrir lok maí ár hvert. Hann kynnti einnig fyrirmæli frá Félagsmálaráðuneytinu um að fresta öllum aðalfundum húsfélaga vegna Covid-19 faraldursins. SUH gerð grein fyrir að ómögulegt væri að halda aðalfund Blindrafélagsins í maí öðruvísi en að fara gegn tilmælum Almannavarna og sóttvarnaryfirvalda.

SUH gerði það að tillögu sinni að aðalfundi Blindrafélagsins yrðu frestað til haustsins og í ágúst mánuði yrði metið hvenær hægt verði að boða til fundarins. Samþykkt samhljóða af bæði aðal og varamönnum í stjórn. Jafnframt var samþykkt að beina því til stjórnar BVS að fresta aðalfundi vinnustofunnar fram á haust.

5. Ársuppgjör Blindrafélagsins 2019, fyrri umræða.

KHE kynnti meginstærðir í ársreikningi Blindrafélagsins fyrir 2019. Þar kemur fram að rekstrartekjur félagsins eru 245,8 milljónir króna sem er 4,3% hærri tekjur en 2019. Rekstrargjöld félagsins eru 234,5 milljónir króna, sem er 12% hækkun frá 2018. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld er jákvæð um 10,8 milljónir króna. Að viðbættum afskriftum og fjármagnsgjöldum er afkoman hins vegar neikvæð um 6,3 milljónir króna.

Stærsta breytingin á milli áranna 2018 og 2019 er aukning á fjáröflunarkostnaði (3 mkr.), félags og hagsmunatengdum kostnaði (4,5 mkr.) og launakostnaði, sem fór úr 87,9 milljónum króna í 105,8 milljónir króna. En það er 1,8% hærri launakostnaður en gert var ráð fyrir í rekstraráætlun. Ákveðið var að stjórnarmenn myndu kynna sér ársreikninginn á milli funda áður en hann kæmi til afgreiðslu.

6. Uppgjör Blindrafélagsins 1. ársfjórðungur 2020.

Megin niðurstaða í rekstri félagsins á fyrsta ársfjórðungi er að rekstratekjur eru 63,3 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 73,2 milljónir króna. Rekstrargjöld voru 63,5 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 68,3 milljónir króna. Meginskýringin á því að tekjur félagsins eru ekki í samræmi við áætlun, liggur í minni fjáröflunartekjum frá bakhjörlum félagsins. Líkur eru á því að aðallega sé um tilfærslu á tekjum milli ársfjórðunga að ræða. Sjá frekari greiningu og skýringar í skýrslu framkvæmdastjóra.

7. Hættan af rafmagns hlaupahjólum.

KH vakti athygli á hættunni sem að stafar af rafmagnshlaupahjólum sem að keyrð eru á mikilli ferð á gangstéttum. Fleiri tóku undir með Kaisu. Samþykkt var að SUH myndi senda erindi til Reykjavíkurborgar þar sem varað er við þessari hættu og óskað upplýsinga um hvaða reglur gilda um þessi farartæki.

8. Önnur mál.

Lilja vakti athygli á reglum Almannavarna sem að gilda um íþróttaiðkun í tengslum við starfsemi Heilsuklúbbsins.

 

Fundi slitið kl. 13:00.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.