Fundargerð stjórnar nr. 2 2020-2021

Fundargerð 2.  stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2020 – 2021, haldinn miðvikudaginn 18.11.2020 kl. 16:00.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður), Kaisu Hynninen (KH) varaformaðu  Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ), ritari, Ásdís Guðmundsdóttir (ÁG) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA).

Fundurinn var haldinn í gegnum Teams fjarfundarbúnaðinn.

1.     Fundarsetning.

SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

2.     Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 1. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum var samþykkt samhljóða.

Önnur mál: Engin mál.

3.     Inntaka nýrra félaga.

Engar umsóknir lágu fyrir.

4.     Skýrslur, bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

  • Úthlutun úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins, Stuðningur til Sjálfstæðis.
  • NSK fundur 3 nóvember.
  • Siðareglur Blindrafélagsins.              
  • Siðareglur kjörinna fulltrúa Blindrafélagsins.
  • Mikilvægar dagsetningar.     

Stjórn samþykkti úthlutanir úr Stuðningi til sjálfstæðis.

 Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Fjáraflanir.
  • Fundur með félags og barnamálaráðherra.
  • Forsendur rekstraráætlunar 2021.
  • Andlát .
  • Teams námskeið.
  • Leiðsöguhundaverkefnið.
  • Viva verkefnið.

5.     Siðareglur Blindrafélagsins.

SUH fór yfir siðareglurnar og gerði grein fyrir því að um væri að ræða siðareglur fyrir kjörna fulltrúa, félagsmenn og starfsmenn. Allir stjórnarmenn höfðu kynnt sér reglurnar og samþykktu að fara eftir þeim og gera þær að sínum.

6.     Leiðsöguhundaverkefnið.

KHE: Fyrir fundinum lá samantekt frá Björk Arnardóttur og Drífu Gestsdóttur á BVO leiðsöguhundaskóla í Danmörku. Samtökin eru að bjóða 60% lægra verð en við höfum verið að greiða fyrir hundana frá Svíþjóð. Innkaupaverð frá Danmörku er 2,8 mkr  (125.000 DKR) en frá Svíþjóð 4,4 mkr (275.000 SKR) miðað við nýlegt gengi.

„Samantekt vegna leiðsöguhunda BFO Danmörk .

Að beiðni Kristins Halldórs Einarssonar var Björk Arnardóttur starfsmanni og leiðsöguhundaþjálfara Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar og Drífu Gestdóttur leiðsöguhundaþjálfara SSR í Svíþjóð falið að afla upplýsingar um starfsemi Brugernes Förehunde Ordning og leiðsöguhunda sem þeir eru að þjálfa og selja.

Við upplýsingaöflun tökum við mið af upplýsingum af heimasíðu samtakanna, skriflegu svari BFO við spurningum Blindrafélagsins og upplýsingum frá utan að komandi aðila sem þekkir til þessa samtaka.

Taka þarf mið að því að þessar upplýsingar eru ekki tæmandi og í raun og veru er erfitt að gera sér raunsanna mynd af þjónustu BFO án þess að hafa kynnt sér það til hlítar með heimsóknum og frekari upplýsingasöfnum eða einfaldlega með því að prófa ,,vöruna“ .

Þegar tekið er tillit til allra ofangreindra þátta er ekki hægt að segja annað en að BFO komi ágætlega út að mörgu leiti. Það eru þó nokkrar spurningar sem vakna sem vert er að leita svara við.  Að okkar mati eru þó tvær spurningar sem vega mestu í þessu máli varðandi verð og gæði.

Prófun og mat ?
Í svari BFO kemur fram að um 11 mánaða aldur séu þeir prófaðir til að athuga hvort þeir henti sem leiðsöguhundar. Það væri gott að fá frekari upplýsingar um hvað er verið að horfa á við það val.

Ekki kom fram í svörunum eða á heimasíðu hvort hundarnir séu teknir út, hvernig það er gert og af hverjum, en það eru upplýsingar sem gott væri að fá til að fá betri mynd af þjálfuninni.

Í flestum löndum eru ákveðnar reglur eða próf sem hundarnir eru teknir út eftir. Prófið miðar að því að prófa getu hundanna sem leiðsöguhunds og prófar m.a. getu hundana undir álagi og áreitum ásamt helstu skipunum og verkefnum sem hundurinn á að geta leyst.

Hundarnir eru yfirleitt teknir út af viðurkenndum stofnunum eins og SSR og/eða af hundaþjálfurum sem hafa réttindi og þekkingu til að taka út leiðsöguhunda.

Hvað liggja margir tímar að baki hverjum hundi ?

Í svari BFO kemur fram að þjálfun hundana taki fimm mánuði og að hluti af því sé í raun og veru samþjálfun. Þetta er gífurlegur tímamunur í þjálfun ef við miðum við það sem við þekkjum og mun að öllum líkindum koma fram í gæðum á þjálfun hundsins. Það kæmi ekki á óvart að hluti af þessum mikla verðmun liggi einmitt í þessum þætti.

,, How long is the training period and how is the training time divided between basic training and training with the users.

The training period is five months. The trainer starts the basic training and soon after in cooperation with the coming user, in order for the dog and user to get to know each other while in sessions of training. “

Í þeim löndum sem við þekkjum til er þjálfunin leiðsöguhunda eitt ár og samþjálfun leiðsöguhunds og notanda hefst að lokinni þeirri þjálfun. Þetta er gert til að tryggja gæði og áreiðanleika hundanna. Þjálfun leiðsöguhunda er tímafrek og er ástæða þess m.a. að miklar kröfur eru gerðar til hundsins og hann þarf tíma og reynslu til að geta fest þjálfunina í sessi.

Ef farið er almennt yfir þjálfun leiðsöguhunda getum við sagt að u.þ.b. 1/3 hluti af þessu ári sem er gefin í þjálfunina fari í grunnþjálfun þar sem verið er að kenna ákveðnar skipanir og þess háttar. Meirihluti þjálfunarinnar getum við sagt að fari í að auka við reynslu og stöðugleika hundanna í mismunandi umhverfi og aðstæðum. Nákvæmlega þessi þáttur skiptir miklu máli í lokaútkomu þjálfunarinnar þar sem við verðum að geta treyst á að hundurinn standi sig vel eftir langan flutning, einangrun, flutning á nýtt heimili og nýjar aðstæður.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá verðum við að hafa hund í höndunum sem þolir allt þetta og stendur einnig af sér að notendur eru vissulega nýir í þessum aðstæðum líka og eiga eftir að gera mistök. Hundurinn verður þá að vera með þessa þjálfun nægilega innprentaða í hausinn á sér til að standa allt þetta af sér og hafa burði til að laga sig að breyttu umhverfi. 

Ef það er rétt að þjálfunin sé einungis 5 mánuðir þá væruð þið að okkar mati að kaupa rétt grunnþjálfaðan hund og mikil vinna lægi framundan við að þjálfa hann frekar. Það væri hætta á því að sú þjálfun stæði ekki af sér mikið áreiti eða streitu. Þetta er eitthvað sem er mjög mikilvægt að hafa í huga við þetta val og sjálfsagt að vega og meta kosti þess og galla.

Á heildina litið þá er margt sem lítur mjög vel út hjá þessari stofnun. Þeir virðast vera með svör á reiðum höndum og eru mjög faglegir í þeim svörum. Þeir virðast vera með reynslumikla þjálfara og eru búnir að vera í ,,bransanum“ í langan tíma. Þeir eru með mikið úrval af hundum sem þarf þó ekki alltaf að vera gott þar sem reynst getur erfitt að finna góð eintök á milli hundategunda og mikil vinna liggur yfirleitt að baki því að finna góða hunda sem henta í þessa vinnu.

Við vonum að þetta yfirlit hafi veitt ykkur einhverja yfirsýn og hjálpi ykkur við þá ákvörðun sem liggur framundan.  Ykkur er velkomið að hafa samband ef fleiri spurningar vakna.“

Stjórnarmenn ræddu muninn á Kunstmarlen í Svíþjóð og BO í Danmörku. Bent var hversu mikill munur væri á þjálfunartíma þar sem að þjálfunartími væri 60% styttri en í Svíþjóð

  Stjórn Blindrafélagsins samþykkti að kaupa tvo hunda á næsta ári frá Kunstmarken í Svíþjóð.

7.     Fyrirhugaður fundur með félags og barnamálaráðherra.

Þann 25. nóvember munu formaður og framkvæmdarstjóri eiga Teams fund með Félags og barnamálaráðherra. Það er að verða ár frá því að óskað var eftir fundinum. Á fundinum stendur til að ræða húsnæðismál ÞÞM í samhengi við fyrirhugaða hækkun Hamrahlíðar 17 og mikilvægi þess að halda þjónustu við blint og sjónskert fólk undir sama þaki. Um leið og það er æskilegt fyrir notendur þá nýtur málaflokkurinn og stofnunin þess , eins og birtist svo vel í því að í gegnum Blindrafélagið hefur málaflokkurinn fengið 250 mkr. Það er um helmingi hærri upphæð en ríkið hefur styrkt Blindrafélagið um frá stofnun ÞÞM árið 2009.

8.     Áskoranir og áætlanagerð.

KHE: Segja má að nokkur óvissa ríki varðandi þær forsendur sem að lagða eru til grundvallar í rekstraráætlun fyrir árið 2021.

  • Laun hækka um 15.750 kr 1. janúar 2021. (ígildi ca 2,5% hækkunar).
  • Líkur eru á að óskað verði eftir auknu starfshlutfalli upp á 0,25 – 0,5.
  • Litlar sem engar líkur eru á hagvaxtaruppbót eins og samningar gera ráð fyrir ef hagvöxtur færi umfram tiltekin viðmið.
  • Gengi íslensku krónunnar hefur sigið umtalsvert á undanförnum mánuðum og óvíst er að hversu miklu leiti það mun skila sér í hækkun á verðlagi til frambúðar og hvað áhrif það mun hafa á verðbólguna.
  • Líkur eru á að Bakhjarlakerfinu skili 50 – 55 mkr. á árinu 2021. Að öðru óbreyttu mun það þýða um 10 – 15 mkr tekjuaukningu. Bakhjarlakerfið skilaði 18,5 mkr 2019.
  • Eign Verkefnasjóðs verður væntanlega um 50 mkr. 31.12.2020.
  • Óvissa er með hvort hið opinbera mun skera niður framlög til samtaka eins og Blindrafélagsins.

9.     Önnur mál.

Engin önnur mál.

Fundi slitið kl. 18:00.

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.