Nýtt verkefni! Vinir Leiðsöguhunda

Lógó verkefnisins, Vinir leiðsöguhunda. Á lógóinu sjálfu er svartur hundur með hvítt leiðsöguhundabe…
Lógó verkefnisins, Vinir leiðsöguhunda. Á lógóinu sjálfu er svartur hundur með hvítt leiðsöguhundabeisli og fyrir aftan hann er stórt bleikt hjarta. Fyrir ofan hundinn stendur Vinir Leiðsöguhunda. Neðst á myndinni er kassi sem inniheldur textann Skannaðu mig til að vita meira, og hægra megin við hann er navilens og qr kóði.

Í tilefni af alþjóðadegi leiðsöguhunda sem er þann 24. apríl næstkomandi fer af stað nýtt verkefni á vegum Blindrafélagsins og Leiðsöguhundadeildar Sjónstöðvarinnar. 

Verkefnið heitir Vinir leiðsöguhunda og hefur það þann tilgang að auka umræðu og sýnileika leiðsöguhunda, auka virkni notenda þeirra og hvetja þá til þátttöku í samfélaginu.


Þátttaka er fyrirtækjum að kostnaðarlausu og við hvetjum öll fyrirtæki og stofnanir að taka þátt!

Þátttaka felst í því að bjóða leiðsöguhunda og notendur velkomna og tilkynna það með sérstökum límmiða í glugga, birta mynd á vef, segja frá á samfélagsmiðlum o.s.frv.


Límmiðinn er í stærð 21x21 cm og inniheldur einnig aðgengilegan QR- kóða þar sem bæði blindir og sjónskertir sem og sjáandi geta kynnt sér verkefnið nánar á vefsvæðinu okkar hér: Vinir leiðsöguhunda | Blindrafélagið

Á vef verkefnisins munu koma fram allir samstarfsaðilar og þátttakendur. Þar munu helstu upplýsingar um fyrirtækin birtast, merki (e. logo) þeirra o.fl.

 

Nú þegar hafa mörg fyrirtæki skráð sig til leiks og við þökkum þeim innilega fyrir, hægt er að sjá þau í þessum hlekk: Hver eru Vinir leiðsöguhunda? | Blindrafélagið


Til að taka þátt í þessu verkefni er hægt að skrá þátttöku hér: Blindrafélagið