Samningur við KSÍ um sjónlýsingu fótboltaleikja.

Mynd af fólkinu sem var viðstatt skráningu samningsins.

Á myndinni hér fyrir ofan eru frá vinstri: Ingólfur Garðarsson (Blindrafélagið), Glódís Perla Viggósdóttir (Fyrirliði landsliðsins), Tómas Þór Þórðarson (Samtök íþróttafréttamanna), Edda Sif Pálsdóttir (Samtök íþróttafréttamanna), Kristinn Halldór Einarsson (Blindrafélagið), Hlynur Þór Agnarsson (Blindrafélagið), Rósa María Hjörvar (Blindrafélagið), Ómar Smárason (KSÍ), Sveindís Jane Jónsdóttir (Landsliðskona).

Miðvikudaginn 20. september skrifaði Rósa María Hjörvar, varaformaður Blindrafélagsins, undir samstarfssamning Blindrafélagsins og KSÍ um sjónlýsingar á öllum leikjum A landsliðs karla og kvenna á Laugardalsvelli. Samningurinn var undirritaður að viðstöddu kvennalandsliðinu á æfingu þeirra fyrir komandi landsleik. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins fá fría miða á leikina fyrir sig og aðstoðarmann ásamt því að fá heyrnatól þar sem þeir geta hlustað á sjónlýsingu á leiknum. Það eru Samtök íþróttafréttamanna sem sjá um sjónlýsingarnar á landsleikjunum.

Næsti leikur verður leikur A landsliðs kvenna við Wales í þjóðardeildinni 22. september klukkan 18:00.

Þeir sem vilja mæta á leikinn þurfa að skrá sig á skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525 0000, eða í gegnum netfangið afgreidsla@blind.is.

Það sem eftir lifir af þessu ári verður sjónlýsing á eftirtöldum leikjum karla og kvenna landsliðsins:
22. september. Ísland – Wales, A lið kvenna.
13. október. Ísland – Lúxemborg, A lið karla.
16. október. Ísland – Liechtenstein, A lið karla.
27. október. Ísland – Danmörk, A lið kvenna.
31. október. Ísland – Þýskaland, A lið kvenna.

Bein sjónlýsing í Vefvarpinu.

Að beiðni Blindrafélagsins hefur KSÍ fallist á að varpa sjónlýstum leikjum inn í Vefvarp Blindrafélagsins undir liðnum "Efni frá Blindrafélaginu", og "Bein sjónlýsing frá íþróttaviðburðum" fyrir félaga sem ekki geta mætt á leikina.

Fótboltaklúbbur Blindrafélagsins.

Þeir félagar sem hafa áhuga á að fá upplýsingar og tilkynningu þegar skráning hefst á næsta fótboltaleik á Laugardalsvelli, geta skráð sig í fótboltaklúbbinn í afgreiðslu Blindrafélagsins í síma 525 0000, eða á netfangið afgreidsla@blind.is.

Áfram Ísland!