Aðgengi - hagkvæm lausn sem nýtist öllum, ekki bara nokkrum!

Mynd sýnir púsl með orðinu lausn (e. Solution)
Mynd sýnir púsl með orðinu lausn (e. Solution)

Stofnanir og fyrirtæki sem hafa hug á að bæta aðgengismálin hjá sér falla oft í þá gryfju að horfa á það sem eitt risavaxið verkefni. Vissulega getur það verið mikið umfangs, en með því að brjóta það niður í mörg smærri verkefni sem tækla má eitt í einu getum við minnkað flækjustigið og það verður mun viðráðanlegra. Lítil hugarfarsbreyting getur þannig afstýrt því að við hættum við áður en við leggjum af stað.

Nauðsynlegt er að skera á naflastrenginn við gamlar mýtur á borð við að aðgengi sé „kostnaðarsöm lausn fyrir fáa“. Staðreyndin er sú að aðgengilegar lausnir eru yfirleitt betri, einfaldari og skilvirkari fyrir alla. Með því að huga að aðgengismálum erum við ekki að „leyfa“ einhverjum ákveðnum hópum að „vera með“. Við erum þess í stað að hugsa um alla sem eina heild, að allir geti verið með, komið á staðinn, keypt vöru og þjónustu, fengið aðgang að upplýsingum o.s.frv.

Að segja að eitthvað sé aðgengilegt þýðir þannig í raun að það sé hugsað „fyrir alla“. Allir vita að það er rangt að mismuna einstaklingum á grundvelli kyns, þjóðernis, búsetu, fötlunar o.s.frv. En með því að huga ekki að aðgengi, erum við þá ekki einmitt að því? Minn boðskapur er því þessi: „Sýnum tillitssemi, höfum alla með og berum virðingu fyrir öllum“.

Aðgengi þarf ekki að vera kostnaðarsamt. Fyrir mér er þetta spurning um val. Fyrirtæki og stofnanir velja t.d. hvaða húsgögn, gólfefni, vefsíður og símkerfi þau notast við. Fæst þeirra virðast þó gera kröfu um gott aðgengi að sínum lausnum frá upphafi, t.d. í útboðsgögnum fyrir smíði smáforrita og vefsíðna. Sé aðgengi ekki haft til hliðsjónar frá upphafi getur þannig myndast sú staða að margra mánaða vinnu þarf að vinna að stóru leyti aftur eða fjármunir tapast þar sem skipta þarf út ýmsum lausnum sem þegar hefur verið fjárfest í. Það er því algjört lykilatriði að gera kröfur og velja vel.

Ef þú hefur einhverjar spurningar, vilt óska eftir ráðgjöf eða fá frekari upplýsingar, hvet ég þig til að hafa samband við okkur hjá Blindrafélaginu í síma 525 0000 eða senda tölvupóst á netfangið adgengi@blind.is.

Vissir þú að:

Blindrafélagið er í samstarfi við ýmis fyrirtæki og er með umboð fyrir ýmsar vörur hérlendis er snúa að aðgengismálum. Við getum veitt ráðgjöf og útvegað lausnir sem stuðla að bættu aðgengi, hvort sem það er í raunheimum eða stafrænum lausnum:

  • Umboðsaðili fyrir leiðarlínur og aðrar umhverfismerkingar frá fyrirtækjunum Handi-Friendly frá Tékklandi og Olejár frá Slóvakíu.
  • Umboðsaðili ReadSpeaker á Íslandi. Talgervislausnir á borð við vefþuluna (hlusta hnappinn) o.fl.
  • Samstarfsaðili Siteimprove á Íslandi. Siteimprove býður lausnir sem snúa að því að bæta gæði vefsvæða, allt frá aðgengi upp í leitarvélabestun.
  • Umboðsaðili NaviLens á Íslandi. NaviLens er ný og spennandi tækni fyrir merkingar í umhverfi, vörum og í raun hverju sem er.
  • Samstarfsaðili Be My eyes á Íslandi. Með Be My Eyes appinu geta sjáandi einstaklingar aðstoðað blinda og sjónskerta notendur með ýmis hversdagsleg verk með einföldum hætti.

Hlynur Þór Agnarsson,
Aðgengis- og upplýsingafulltrúi Blindrafélagsins
hlynur@blind.is