Tölvuleikurinn The Last Of Us: Part 2 er líklega einn sá aðgengilegasti sem framleiddur hefur verið.

Í dag, 19. júní 2020, kemur út tölvuleikurinn The Last Of Us: Part 2 fyrir PlayStation 4 frá framleiðandanum Naughty Dog. Við gerð leiksins var sérstök áhersla lögð á aðgengi og haft að leiðarljósi að allir eiga að geta spilað leikinn. Þetta er stór breyting frá því sem verið hefur í þróun tölvuleikja hingað til. Margar og fjölbreyttar stillingar eru í boði í leiknum sem hver og einn spilari getur breytt og aðlagað. Ekki einungis er verið að tala um hefðbundnar stillingar eins og erfiðleikastig, aðlögun á birtustigi, eða stærð á texta, heldur hefur verið farið miklu lengra en nokkur annar framleiðandi hefur gert áður.

Til staðar eru fyrir fram ákveðin stillingar-mengi sem hafa verið hönnuð fyrir blinda, heyrnarlausa eða hreyfihamlaða. Sá sem spilar getur skoðað hvaða stillingar breytast þegar þessi mengi eru valin og getur einnig alltaf farið og breytt einstökum stillingum eftir sínum óskum, hvar og hvenær sem er í leiknum.

The Last Of Us: Part 2 er hægt að spila í gegn með því að nota eingöngu hljóð. Hljóðhönnun leiksins gerir t.d. blindum kleift að skoða umhverfið, berjast við óvini og fá tal-lýsingu á hlutum sem þeir finna í umhverfinu. Mikil vinna var lögð í að hægt sé að staðgreina með nákvæmni hvaðan hljóð koma, sé það vinstra megin, að framan, fyrir aftan, langt í burtu eða nálægt. Hreyfihamlaðir geta hægt á atburðarás leiksins svo þeir geti betur brugðist við atburðarrásinni. Sjónskertir geta stillt inn sterkar lita-andstæður og geta þá t.d. séð vini á skjánum í bláum lit en óvinina í rauðum lit. Allt sem sagt er í leiknum er textað og hægt er að stilla stærð og gerð leturs.

Þetta eru bara fá dæmi um hvaða stillingar eru í boði. Hægt er að búa til einfaldar flýtileiðir fyrir ýmsar aðgengisstillingar svo hægt sé að kveikja og slökkva á þeim á fljótlegan og einfaldan hátt.

Aðgengilegur tölvuleikur þarf nefnilega ekki að vera auðveldur tölvuleikur. Þeir sem spila tölvuleiki hafa sínar ástæður fyrir því. Sumir leitast eftir erfiðum áskorunum á meðan aðrir spila tölvuleiki meira fyrir stemningu, félagsskap eða t.d. út af söguþræðinum. Fegurðin við að geta breytt stillingum á hvaða tímapunkti sem er, virkar því vel fyrir þá sem eru í leit að áskorun.

Af þeirri umfjöllum sem hefur verið um leikinn nú þegar má ætla að vel hafi tekist til og þessi leikur setur kröfur um aðgengi tölvuleikja á nýjan og hærri stall. Naughty Dog hafa sýnt með verki sínu að hægt er að gera tölvuleiki fullkomlega aðgengilega fyrir alla þá sem hafa gaman af þeim. Oft eru lausnirnar ekki flóknar, en þær skipta gífurlega miklu máli fyrir marga spilara.

Við vonum að fleiri leikjafyrirtæki fylgi eftir þessari frábæru stefnu Naughty Dog og byrji að gera leiki sína aðgengilegri. Það er fullt af fólki sem hefur gaman af tölvuleikjum og er það von okkar að tölvuleikir í framtíðinni verði hannaðir fyrir alla.

Hér má sjá myndband af blindum tölvuleikjaspilara ræða leikinn en hann kom einnig að aðgengismálum hans.

Athugið að leikurinn The Last Of Us: Part 2 er ætlaður fullorðnum og er ekki hannaður fyrir börn.