Heljarmennafélag Blindrafélagsins gengur Laugaveginn.

Dagana 15. júlí (miðvikudagur) til 19 júlí (sunnudagur), mun Heljarmennafélag Blindrafélagsins, í samstarfi við Ferðafélag Íslands, standa fyrir Laugavegsgöngu. En þá er gengið frá Landmannalaugum í Þórsmörk, sem er um 54 km leið. Ferðafélagið mun leggja til fararstjóra og skálapláss á Ferðafélagsverði.

Núna er einstakt tækifæri á að ganga þessa leið án þess að á ferðinni sé allt fullt af öðru göngufólki. Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er einhver allra vinsælasta gönguleið landsins og hefur að auki komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi.

Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.

Þar sem fjöldi þátttakenda takmarkast við pláss í skálum þá er hámarks fjöldi þátttakenda 20 manns. Skráning í ferðina er á skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525 0000 eða á netfangið lara@blind.is.

Ef áform ganga eftir má reikna með að kostnaður félagsmanna geti verið 20 - 30 þúsund krónur að mat meðtöldum. Verðlistaverð á svona ferð hjá Ferðafélaginu og Útivist er rúmar 100 þúsund krónur og er það án matar. Stefnt verður að því að vera með sameiginlegar máltíðir sem við fáum vonandi gefins hráefni í frá velunnurum og birgjum.

Gist í skálum í fjórar nætur og farangur trússaður (keyrður) á milli skála.

Fljótlega mun verða boðað til kynningarundar fyrir þátttakendur með fararstjórum.

Leiðarlýsing:
15. júlí, miðvikudagur: Ekið í Landmannalaugar og gengið í Hrafntinnusker þar sem verður gist.
16. júlí, fimmtudagur: Gengið um Kaldaklofsfjöll og í skálann við Álftavatn.
17. júlí, föstudagur: Á þessari dagleið er komið við í Hvanngili, Bláfjallakvíslin er vaðin og arkað yfir sanda á leið í skálana á Botnum í Emstrum. Markarfljótsgljúfur skoðað.
18. júlí, laugardagur: Vaða þarf Þröngá á leið í Þórsmörk þar sem gist er síðustu nóttina.
19. júlí, sunnudagur: Morgunganga áður en haldið er af stað til Reykjavíkur.

Hér má sjá ítarlega leiðarlýsingu.