Karl og Dóra hætta að virka í Android snjalltækjum eftir nýjustu uppfærslu.

Þegar Android snjalltæki verða uppfærð í Android 11 stýrikerfið eru miklar líkur á því að íslensku raddirnar Karl og Dóra hætti að virka. Við mælum því ekki með að uppfæra í Android 11 stýrikerfið ef þú notar raddirnar mikið í þínu snjalltæki.

Íslensku raddirnar Karl og Dóra voru settar á markað fyrir Windows stýrikerfið árið 2012 og stuttu síðar var Dóra aðgengileg fyrir Android stýrikerfið. Fjölbreytileiki á notkun raddanna fer vaxandi. Margir notendur reiða sig á raddirnar við skjálestur og við alla notkun snjalltækja auk tölvunotkunar, á meðan aðrir nýta þær t.d. í námi, við lestur frétta eða jafnvel yndislestur. Stór hópur fólks notar íslensku raddirnar Karl og Dóru í sínum Android tækjum daglega og er það því sorglegt að á þessum tímapunkti séu engar aðrar lausnir í vændum.

Blindrafélagið hefur unnið að viðhaldi raddanna frá upphafi, en eftir að Amazon keypti IVONA, framleiðanda íslensku raddanna, hafa aðlaganir orðið erfiðari með árunum.

Blindrafélagið fékk fyrirtækið ReadSpeaker til að taka að sér umsjón með röddunum á Android stýrikerfinu og var Karl gerður aðgengilegur á Android árið 2016. Síðan þá hefur ReadSpeaker haldið Karli og Dóru röddunum gangandi á Android gegnum uppfærslur á því stýrikerfi, en Amazon hefur hætt uppfærslum á SDK lausninni fyrir íslensku raddirnar og er því orðið mjög erfitt að fá raddirnar til að virka með nýjum stýrikerfisuppfærslum.

Árið 2019 gerði Google breytingar á skilmálum sínum í Google Play þar sem hugbúnaður verður einnig að vera aðgengilegur í 64 bita útgáfu. Þar sem raddirnar og SDK pakkinn sem við fengum frá IVONA er aðeins til í 32 bita útgáfu, varð ljóst að þessar raddir myndu líklega hverfa úr hugbúnaðarverslun Google í ágúst 2021.

Það hefur tekist að virkja raddirnar í einhverjum símum eftir síðustu uppfærslu, en það er langt frá því öruggt að þær aðferðir virki fyrir alla. Við mælum því með að fólk uppfæri ekki tækin sín í Android 11 ef það vill vera 100% viss um að raddirnar haldi áfram að virka í þeirra tækjum.

Eftirfarandi Samsung vörur hafa fengið boð, eða fá boð fljótlega, um að uppfæra í Android 11:
Í desember 2020: Samsung Galaxy S20 Ultra, S20 Plus og S20.
Í janúar 2021: Samsung Galaxy Note 10 Plus, Note 10, S10 Plus, S10, S10 Lite, Z Fold 2, Z Flip, 20 Ultra, Note 20.
Í febrúar 2021: Samsung Galaxy Fold.
Í mars 2021: Samsung Galaxy Tab S7, Note 10 Lite, A51, M31, M30S, M21.
Í apríl 2021: Samsung Galaxy A50 og M51.

Á síðunni Android Authority er hægt að skoða allar vörulínur frá Samsung og öðrum framleiðendum og sjá hvenær Android 11 verður send út í þeirra tæki: 

Notendur sem hafa þegar uppfært í Android 11.

Fyrir þá notendur sem þegar hafa uppfært í Android 11 og raddirnar virka ekki, er hægt að prófa eftirfarandi:

Í Android snjalltækinu þínu skalt þú opna Play Store og leita að forritinu „Android Accessibility Suite“. Náðu í forritið eða gakktu úr skugga um að það sé uppfært í nýjustu útgáfu. Opnaðu næst stillingar tækisins, opnaðu liðinn “Aðgengi” og þar undir liðinn “Talkback”. Kveiktu á Talkback, samþykktu að veita aðgang að því sem síminn biður um og sjáðu hvort raddirnar fari aftur í gang.

Einnig er hægt að prufa að opna forritið fyrir íslensku raddirnar beint með því að leita að IVONA forritinu í tækinu. Þegar forritið er opnað þarf hugsanlega að samþykkja aftur skilmálana og veita röddunum leyfi í tækinu. Næst er hægt að opna Android talgervilsstillingar. Hægt er að prufa að skipta á milli talgervilsvéla en eftir að hafa skipt á milli skal velja Íslenskar IVONA raddir sem talgervilsvél. Ef síminn er með viðmótið á íslensku skal nota tungumál sem viðmót kerfis, annars þarf að vera valið íslenska. Þá er hægt að prufa að ýta á spila hnappinn til að prufa raddirnar.

Ef fólk hefur aðrar ráðleggingar má endilega senda þær til okkar á adgengi@blind.is.