Alþjóðadagur punktaleturs 4. janúar.

Fjórði janúar er fæðingardagur Louis Braille, mannsins sem fann upp á þeirri merku nýjung að gera blindum- og sjónskertum kleyft að lesa með upphleyptu letri.  Uppgötvun sem hefur alla tíð síðan haft afgerandi áhrif á lífsgæði og eflt tækifæri blindra- og sjónskertra einstaklinga um allan heim.  Punktaletrið er enda við hann kennt á mörgum tungumálum og einfaldlega kallað Braille þó svo að norrænu löndin nefni það punktskrift eða punktaletur.

Þann 17. desember síðastliðinn urðu þau merku tímamót að aðalþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að festa í sessi alþjóðlegan dag punktaletursins. 

Tilgangurinn með Alþjóðadegi punktaleturs, þann 4. janúar ár hvert, er að vekja athygli á mikilvægi punktaletursins til að gera lesefni af alskyns tagi aðgengilegt fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga um allan heim. 

Þetta er einkar mikilvægur áfangi í ljósi þess að punktaletur er leið blindra að læsi og læsi er lykillinn að menntun.  Mennt er máttur sem gefur fólki tækifæri til að ná markmiðum sínum og láta drauma sína rætast.  Menntun er einnig grundvöllur virkrar þáttöku í samfélaginu og þess að njóta fullrar viðurkenningar á atvinnumarkaði, sem flestir aðrir taka sem sjálfsögðum hlut.

Alþjóðlegur dagur punktaletursins skapar því gott tækifæri til að minna á mikilvægi þess fyrir blinda og sjónskerta.  Lestur og aðgengi að lesefni á viðeigandi formi eru mannréttindi, en ekki lúxus í nútíma samfélagi. Bókmenntir eru mikilvægar fyrir alla, líka blinda og sjónskerta.  En punktaletrið er einnig nauðsynlegt til þekkingaröflunar á öðrum sviðum,  til dæmis til að tileinka sér stærðfræði, landafræði, málfræði, tónfræði og nótnalestur, svo eitthvað sé nefnt.  Punktaletrið hefur einnig margvísleg önnur hversdagsleg not, það finnst til dæmis á lyklakippum, kaffibrúsum, í uppskriftum, á kryddbaukum og á lyfjaumbúðum.

Viðurkenning Sameinuðu þjóðanna á mikilvægi punktaletursins er því fagnaðarefni um allan heim.  Enda hafa fáar nýjungar haft jafn afgerandi áhrif á líf þeirra sem framfaranna njóta eins og punktaletrið þegar það kom fram á sjónarsviðið.  Allt frá fyrstu tíð hefur punktaletrið eflt sjálfstæði, læsi og færni milljóna manna um allan heim. Ólíkt ýmiskonar nútímatækni sem er of dýr fyrir meirihluta blindra- og sjónskertra á heimsvísu, getur punktaletrið með einföldum tækjabúnaði verið aðgengilegt allsstaðar, óháð efnahag eða tungumáli. 

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, tekur heilshugar undir með samherjum okkar um allan heim og fagnar því að Sameinuðu þjóðirnar viðurkenni mikilvægi punktaletursins með jafn afgerandi hætti. 

Alþjóða dagur punktaleturs er kominn til að vera!

Til hamingju með daginn.

Sigþór U. Hallfreðsson,

Formaður Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.