Aðalfundur Blindrafélagsins var haldinn í húsnæði félagsins að Hamrahlíð 17 laugardaginn 10. maí. Góð þátttaka var meðal félagsmanna, þeir þátttakendur sem ekki sáu sér fært að mæta tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað.
Á fundinum lauk kosningu til trúnaðarstarfa sem staðið hafði yfir rafrænt frá 29. apríl þar til fundarstjóri lokaði fyrir atkvæðagreiðslu kosninga.
Kosið var í stöðu tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn Blindrafélagsins og réð atkvæðafjöldi því hverjir tóku sæti sem aðalmenn og varamenn.
Kosningar fóru þannig að:
Unnur Þöll Benediktsdóttir hlaut 39 atkvæði eða 67,24% atkvæða.
Þorkell Jóhann Steindal hlaut 36 atkvæði eða 62,07%
Guðmundur Rafn Bjarnason hlaut 29 atkvæði eða 50% atkvæða.
Kaisu Kukka Maaria Hynninen 28 atkvæði eða 48,28% atkvæða.
Unnur Þöll og Þorkell Jóhann taka sæti í stjórn sem aðalmenn og Guðmundur Rafn og Kaisu taka sæti sem varamenn.
Fundurinn samþykkti svohljóðandi ályktanir.
Ályktun Aðalfundar Blindrafélagsins 2025 – Hljóðbókasafnið heim
Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 10. maí 2025
Aðalfundur Blindrafélagsins skorar á stjórnvöld að tryggja að Hljóðbókasafn Íslands fái framtíðarhúsnæði í Hamrahlíð 17, þar sem það hóf starfsemi sína árið 1982 og á eðlilegan samastað innan öflugs þjónustukjarna fyrir blint og sjónskert fólk.
Allt stefnir í að safnið þurfi að flytja úr núverandi húsnæði á næstu mánuðum þar sem húsnæðið hefur verið selt. Með aukinni stafrænni þróun hefur húsnæðisþörf þess minnkað verulega og því er ljóst að Hamrahlíð 17 hentar starfseminni mun betur en áður, hvað varðar stærð, aðgengi og samlegð við aðra þjónustu. Það er því rökrétt niðurstaða að safnið þekkist boð Blindrafélagsins um aðstöðu í Hamrahlíð 17.
Í Hamrahlíð 17 er þegar fyrir hendi fjölbreytt og samhæfð þjónusta sem blint og sjónskert fólk sækir sér: endurhæfing, ráðgjöf, tækniaðstoð og jafningjastuðningur. Blindrafélagið hefur um árabil unnið að því að koma sem mestu af þjónustu við blint og sjónskert fólk undir eitt þak.
Með endurkomu Hljóðbókasafnsins myndi enn frekar styrkjast sú heild sem húsið stendur fyrir. Einnig myndi starfsfólk safnsins fá betri vinnuaðstöðu í rými sem er sérútbúið með þarfir notenda að leiðarljósi.
Hljóðbókasafnið er lykilstofnun í aðgengi blindra og sjónskertra að bókmenntum, menningu og upplýsingum. Safnið er lifandi dæmi um hvernig hægt er að veita aðgengi að efni sem annars væri lokuð bók fyrir fjölda fólks. Með því að gera efni aðgengilegt hefur safnið átt stóran þátt í að auka sjálfstæði notenda, styrkja menntunarmöguleika þeirra og gera þeim kleift að taka virkan þátt í menningar- og samfélagslífi á eigin forsendum.
Aðalfundurinn telur að engin gild rök standi gegn því að safnið komi aftur heim í Hamrahlíð 17.
Fundurinn hvetur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra til að bregðast tafarlaust við og taka skýra ákvörðun án frekari tafa, svo Blindrafélagið geti undirbúið móttöku safnsins og tryggt að þjónustan raskist sem minnst við flutningana.
Skoðunarkannanir Gallup hafa sýnt að þjónusta Hljóðbókasafns Íslands er sú þjónusta sem verðmætust er að mati félagsmanna Blindrafélagsins. Það væri því synd að láta þetta einstaka tækifæri úr greipum ganga til að koma safninu aftur heim.
Ályktun Aðalfundar Blindrafélagsins 2025 – Fyrir réttlátara samfélag
Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 10. maí 2025
Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 10. maí 2025, skorar á Alþingi að tryggja framgang eftirfarandi atriða sem styrkja grundvöll mannréttinda, auka samfélagslega þátttöku og bæta lífskjör fólks með sjónskerðingu og annarra fatlaðra einstaklinga.
Lögfesting Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)
Blindrafélagið ítrekar kröfu sína um að Ísland lögfesti SRFF í heild sinni. Þrátt fyrir að Ísland hafi undirritað samninginn árið 2007 og fullgilt hann árið 2016, hefur hann enn ekki verið lögfestur hér á landi. Samningurinn kveður á um jafnan rétt fatlaðs fólks til þátttöku í samfélaginu, sjálfstæðs lífs og aðgengis að þjónustu og upplýsingum.
Fyrirliggjandi frumvarp (þingskjal 45/155) gefur skýra leið að lögfestingu og við hvetjum Alþingi eindregið til að ljúka þeirri vegferð nú þegar.
Lögfesting tengingar örorkulífeyris við launavísitölu
Blindrafélagið skorar á Alþingi að lögfesta að örorkulífeyrir fylgi þróun launavísitölu. Undanfarin ár hafa örorkulífeyrisþegar orðið undir í tekjuþróun, þar sem lífeyrir hefur hvorki fylgt almennri launaþróun né verðlagi. Trygg og réttlát framfærsla er grundvöllur virkrar þátttöku í samfélaginu og mannlegrar reisnar.
Við vísum í frumvarp (þingskjal 291/155), þar sem lagt er til að í stað orðsins „launaþróun“ í 2. málsl. 62. gr. laga um almannatryggingar komi: „þróun launavísitölu Hagstofu Íslands“. Við hvetjum Alþingi til að samþykkja það án tafar.
3. Markviss innleiðing vefaðgengistilskipunar ESB með skýrum tímaramma, ábyrgðarskiptingu og mælanlegum árangursviðmiðum
Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að tryggja að vefaðgengistilskipanir Evrópusambandsins – tilskipun (EU) 2016/2102 um aðgengi að vefsvæðum og smáforritum opinberra aðila, og tilskipun (EU) 2019/882 um aðgengi að afurðum og þjónustu, verði teknar upp í íslensk lög án fyrirvara.
Innleiðing vefaðgengistilskipunar ESB þarf að fela í sér tímasettar aðgerðir og skýra ábyrgðaskipan, svo unnt sé að tryggja að opinber þjónusta, upplýsingamiðlun og stafrænar lausnir verði raunverulega aðgengilegar öllum.“
Samantekt
Þessi mál, sem varða grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks, eru þegar til meðferðar eða í undirbúningi á Alþingi. Með því að tryggja framgang þeirra getur Alþingi sýnt raunverulega ábyrgð og stigið skref í átt að réttlátara, aðgengilegra og mannúðlegra samfélagi, þar sem enginn er skilinn eftir.