Fundargerð stjórnar nr. 13 2016-2017

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Rósa María Hjörvar (RMH) varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS) ritari, Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ) gjaldkeri, Lilja Sveinsdóttir (LS) meðstjórnandi, María Hauksdóttir (MH) varamaður, Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Patrekur Andrés Axelsson (PAA) varamaður

1.  Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu að dagskrá sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

Lýst eftir öðrum málum: MH

2.  Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 12. fundar, sem send hafði verið fundarmönnum fyrir fundinn var samþykkt.

3. Skýrslur

Í skýrslu formanns var fjallað um:

       Myndbandsgerð á vegum ÖBÍ.      

       Algilda hönnun og aðgengismál.   

       Félagsgjöld til EBU.   

       Fundur með Laufey Löwe.   

       Framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks. 

       Af norrænu samstarfi.

       Af vettvangi EBU.      

       Af vettvangi ÖBÍ.      

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

       Áætlanagerð fyrir 2017.     

       Leiðsöguhundadagatal 2017.

       Hausthappadrætti Blindrafélagsins.

       Hljómflutningstæki í fundarsalinn. 

       Hækkun á skammtímaleigu íbúða, herbergja og salarleigu.       

       Ofn í eldhúsið.

       Hlífðargleraugnaverkefni Blindrafélagsins, Landsbjargar og Póstsins.   

       Kynningarmyndband.

       Brunaviðbragðsáætlun og brunaæfing.

       Útleiga á Oxymap rýminu.

4. Bréf og erindi.  

Bréf frá Fríðu Rún Þórðardóttur, formanni Asma og ofnæmissamtaka Íslands þar sem að sú afstaða samtakanna er kynnt að barátta þeirra gegn gæludýrum í almenningsvögnum, þá liti samtökin ekki svo á að leiðsöguhundar fyrir blinda flokkist undir gæludýr.

Tilkynning um 10 nýja félagsmenn.

5. Framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks.

SUH lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn Blindrafélagsins um  tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árunum 2017 – 2021:

„Stjórn Blindrafélagsins hefur fjallað um drög að þingsályktunartillögu um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Á þessu stigi kýs Blindrafélagið að koma á framfæri ábendingum um atriði sem snúa að þjónustu við blint og sjónskert fólk og stjórnin telur mjög mikilvægt tillit verði tekið til.

Þessi atriði snúa að:

1.     Hugmyndafræðinni að baki skipulags á mjög sérhæfðri þjónustu.

2.     Stafrænu aðgengi.

3.     Atvinnumál.

4.     Hjálpartæki.

5.     Aðgengi að menntun.

6.     Niðurlag.

Hugmyndafræðin að baki skipulags á mjög sérhæfðri þjónustu.

Við fyrstu sýn virðist sem að þörfin á að stytt biðlista um þjónustu Greiningastöðvar ríkisins séu grundvöllur þess hvernig þjónusta við aðra hópa, eins og til dæmis blinda og sjónskerta, skuli skipulögð. Í þessum efnum virðist byggt á þeirri hugmyndfræði að færa mjög sérhæfða þjónustu sem í dag er veitt miðlægt af sérhæfðum ríkisstofnunum yfir til sveitarfélaganna. Þetta hefur verið gert á norðurlöndum með þjónustu við blint og sjóskert fólk með þeim afleiðingum að þjónustan hefur versnað við þá sem ekki búa á þéttbýlustu stöðunum.

Í þessum samhengi vekur það athygli að engir fulltrúar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Samskiptamiðstöðvar Íslands eða Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands skuli hafa átt aðkomu að þessari vinnu. Allt eru þetta stofnanir sem að veita fólki með skynfatlanir mjög sérhæfða þjónustu sem ekki verður séð að hægt sé að færa yfir til sveitarfélaganna nema með þeim afleiðingum að þjónustan versni til mikilla muna.

Í upphafi árs 2009 varð bylting á Íslandi í þjónustu við blint og sjónskert fólk. Þá tók til starfa Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (Miðstöðin). Allur undirbúningur að stofnun Miðstöðvarinnar var til mikillar fyrirmyndar og samráð við hagsmunaaðila var virkt og árangursríkt. Nú er svo komið að þegar að þjónustan við blint og sjónskert fólk á Íslandi er borin saman við þjónustuna á norðurlöndum þá er þjónustan hér á landi þó nokkuð betri, að mati Blindrafélagsins. Þjónustunni hér á landi hefur farið mikið fram á meðan að þjónustunni hefur víða á norðurlöndum farið aftur. Þetta er hægt að mæla með tölum um atvinnuþátttöku og fjölda í framhalds- og háskólum. Að mati norrænu Blindrasamtakanna má rekja þessa þróun til þess að þjónustan við blinda og sjónskerta einstaklinga var færð frá því að vera miðlæg yfir í að vera á ábyrgð sveitarstjórna eða fylkja.

Stjórn Blindrafélagsins varar eindregið við því að sú miðlæga sérhæfða sérfræðiþjónusta sem Miðstöðin veitir blindu og sjónskertu fólki á öllum aldri, verði færð yfir til sveitarfélaga eða þjónustusvæða. Jafnframt er varað við því að fyrirkomulagi fjármögnunar þjónustunnar verði breytt. Það er að okkar mati alveg ljóst að verði slíkt gert mun það hafa í för með sér að þjónusta við blint og sjónskert fólk versnar til mikilla muna og farið yrði áratugi aftur í tímann. Afleiðingarnar myndu meðal annars verða minnkandi atvinnuþátttaka, minni möguleikar til mennta og almennt versnandi lífsgæði og töpuð sérfræðiþekking sem byggð hefur verið upp á undaförnum árum innan Miðstöðvarinnar. Það er mikilvægt að hafa í huga að fjöldi blindra og sjónskertra einstaklinga hér á landi er alls ekki nógu mikill til að einstök sveitarfélög eða þjónustusvæði geti byggt upp og viðhaldið nauðsynlegri sérfræðiþekkingu til að geta veitt viðunandi þjónustu á árangursríkan hátt fyrir blinda eða sjónskerta einstaklinga. Í þessu sambandi má benda á að í mörgum sveitarfélögum geta liðið mörg ár á milli þess sem þörf er á að þjónusta blindan eða sjónskertan einstakling.

Verði hætt að veita þessa þjónustu miðlægt, eins og nú er gert, þá mun slík breyting ganga gegn meginmarkmiðum þeirrar stefnu og framkvæmdaáætlunar sem hér er til umfjöllunar.   

Það er ekki þörf á að breyta eða laga það sem virkar vel.

Stafrænt aðgengi.

Stafrænt aðgengi er hvergi nefnt á nafn í aðgengiskafla þessarar tillögu. Stafrænt aðgengi er hinsvegar mjög mikilvægt blindu og sjónskertu fólki. Án þess á það litla möguleika á að vera virkir samfélagsþegnar. Ef starfrænt aðgengi að upplýsingum er hins vegar í lagi þá eru því flestir vegir færir. Blindrafélagið telur mikilvægt að inn í aðgengishlutann verði bætt sérstökum kafla um stafrænt aðgengi. Nægur efniviður er til staðar til að vinna úr m.a:

       Aðgengisstefna Ríkisstjórnar Íslands fyrir opinbera vefi til að tryggja aðgengi m.a. fyrir blinda sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur efnis og notkun vefja almennt frá því í maí 2012. Sjá hér. (Opnast í nýjum vafraglugga)

       Tilskipun Evrópusambandsins frá 26.10.2016 um aðgengi að vefsvæðum og smáforritum fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Sjá hér. (Opnast í nýjum vafraglugga)

Atvinnumál.

Í kafla B1 er talað um ráðgjöf vegna starfsfólks með fötlun og ábyrgð Vinnumálastofnunar. Þarna vanta samráð við sérhæfðar stofnanir eins og Þjónustu og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Hjálpartæki.

Í kafla B4 er talað um aðgang að hjálpartækjum vegna atvinnu. Við fögnum þessari tillögu en sjáum ekki fyrir okkur hvernig Sjúkratryggingar Íslands eiga að gefa ráðgjöf um tækni og tæki fyrir blinda. Sérhæfingin er einfaldlega of mikil.

Kafli G7 um hjálpartæki vekur sérstaka athygli þar sem það er okkar skilningur að þessi tillaga feli í sér að það eigi að úthýsa hjálpartækjaumsóknum og afgreiðslum til Sjúkratrygginga, sveitarfélaga og heilsugæslustöðva. Þetta er þróun sem við teljum afar óheppilega og útvatna þekkingu og þjónustu á mjög sérhæfðri tækni og tækjum.

Aðgengi að menntun.

Til umhugsunar þá vill stjórn Blindrafélagsins benda á að um leið og það er mjög mikilvægt  að huga að uppbyggingu fjölbreyttara náms, á bæði framhalds og háskólastigi, sem hentar fötluðu fólki, þá má ekki missa sjónar á mikilvægi þess að það nám sem nú þegar er til staðar sé aðgengilegt fötluðu fólki. Margir fatlaðir einstaklingar er þess fullfærir að klára flest af því námi sem í dag er boðið uppá í íslensku menntakerfi ef viðvarandi aðgengishindrunum er rutt úr vegi.

Niðurlag

Stjórn Blindrafélagsins er þeirrar skoðunar að verði þessum tillögum hrint í framkvæmd óbreyttum og hin sérhæfða þjónusta sem veitt er af Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni, fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga, verði færð frá ríki til sveitarfélaga, þá muni þessar tillögur valda miklum skaða og skerða til mikilla muna lífsgæði blinds og sjónskerts fólks auk þess sem að dýrmæt fagþekking mun tapast.

Blindrafélagið lýsir sig reiðubúið til samtals um þessar athugasemdir.“

MH lagði til að bætt yrði við umsögnina þeirri athugasemd að tekinn yrði inn kafli B4  úr  áætluninni 2012 – 2014 um það markmið að auka nýsköpunar og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks.

Framlög drög og viðbótartillaga MH var samþykkt.

6. Blind.is

RMH fór yfir helstu atriðin í framlagðri úttekt sem hún gerði á heimasíðu Blindrafélagsins. Skýrsla yfir úttektina var send öllum stjórnarmönnum með fundargögnum.

Samþykkt var að framkvæmdastjóri ásamt BSS myndu fara í að kanna hvaða valkostir væru í stöðunni og fara i könnunarviðræður við mögulega samstarfsaðila varðandi það að uppfæra síðuna, eða smíða nýja.

7. Hugræn heilsa.

SUH gerði grein fyrir hugmynd um að setja upp þrjá fundi sem að hafa það markmið að gefa félagsmönnum tækifæri á að deila reynslu og veita og sækja sér jafningjastuðning. Umræður sköpuðust um hugmyndina og var almenn ánægja meðal stjórnarmanna með hugmyndina og hvöttu til þess að henni yrði hrint í framkvæmd.
SUH vinnur að undirbúningi verkefnisins.

8. Starfsáætlun stjórnar janúar – júní 2017.

SUH lagði fram eftirfarandi  starfsáætlun fram á sumar:

       11. janúar (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       18. janúar (miðvikudagur) vinnufundur stjórnar (Stefnumótun – staðan á verkefnum).

       20. janúar (föstudagur) samstarfsfundur stjórnar, deilda og nefnda.

       21. janúar (laugardagur) vinnudagur stjórnar (Stefnumótun - SVÓT).

       26. janúar (fimmtudagur) 1 af 3 fræðslufundur um andlega vellíðan (Svefn, áföll o.s.frv.).

       1. febrúar (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       22. febrúar (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       23. febrúar (fimmtudagur) 2 af 3 fræðslufundur um andlega vellíðan (Svefn, áföll o.s.frv.).

       15. mars (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       23. mars (fimmtudagur) félagsfundur.

       30. mars (fimmtudagur) 3 af 3 fræðslufundur um andlega vellíðan (Svefn, áföll o.s.frv.).

       5. apríl (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       26. apríl (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       6. maí (laugardagur) aðalfundur.

       24. maí (miðvikudagur) stjórnarfundur.

       7. júní (miðvikudagur).stjórnarfundur.

       28. júní (miðvikudagur). stjórnarfundur.

9. Önnur mál.

MH: Spurði hvað ætti að gera með hugmyndir sem að hefðu komið fram í umræðum  á borðum á seinasta félagsfundi.
SUH mun senda Strætó erindi um að setja bekk í Strætó skýlið við Hamrahlíð.
Ekki er talið raunhæft að vera með lausa innkaupakerru.

EL gerði athugasemd við að mötuneytið yrði lokað í 12 virka daga yfir jólahátíðarnar.

Fundi slitið kl 17:50

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.