Fundargerð félagsfundar 23. nóvember, 2022

1. Fundarsetning

Formaður félagsins, Sigþór U. Hallfreðsson, setti fundinn kl. 17.30. Hann nefndi að nokkrir félagsmenn hlustuðu á fundinn á vefvarpinu en enginn var búinn að skrá sig rafrænt á fundinn.

 

2. Kynning viðstaddra

Á fundinum sátu 36 félagsmenn auk þriggja starfsmanna Blindrafélagsins.

 

3. Val á fundarstjóra og fundarritara

Rósa María Hjörvar var valin fundarstjóri og Marjakaisa Matthíasson fundarritari.

 

4. Afgreiðsla fundargerðar seinasta félagsfundar

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

5. Þjónusta sveitarfélaga við blint og sjónskert fólk.

Nokkrir félagsmenn og fulltrúi Reykjavíkurborgar héldu stutt erindi um þjónustuna. Fyrst tók til máls Halldór Sævar Guðbergsson sem sagði frá reynslu sinni af beingreiðslusamningum í Reykjavík og Akureyri. Halldór tók fram að þjónustunni hafi fleygt fram þó að enn vanti rammann um hvernig hún felli best fyrir alla hópa. Fyrir hann er beingreiðslusamningurinn jafn mikilvægur þáttur og að fá ferðaþjónustuna á sínum tíma. Í byrjun fékk hann liðveislu og heimaþjónustu eftir að hafa gert upp við sjálfan sig að þiggja þjónustu frá sveitarfélaginu. Honum fannst það þýða ákveðna missi í sjálfstæði. Þegar hann fékk fyrstu beingreiðslusamning á Akureyri notaði hann þjónustuna t. d. í að fara á skíði. Nú notar hann hana í Reykjavík til að versla, í bankaerindum, við aðstoð í tölvumálum, sjóntúlkun og lestur. Þessi þjónusta hefur reynst honum mjög vel.

Halldór er núna með þrjá starfsmenn sem vinna skv. verktakasamningi. Kosturinn er að þurfa ekki alltaf að fá nýtt fólk heim til sín. Halldór nefndi einnig baráttuna við kvíða og þunglyndi og sagði að það sé betri þekking á þessu hjá félagsþjónustunni en á þörfum blindra og sjónskertra.

Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sagði frá þeirri þjónustu sem stendur blindum og sjónskertum til boða í Reykjavík. Hún nefndi heimasíðu þjónustunnar hjá Reykjavík og þótti það miður að enn virki vefþulan ekki á síðunni.

Hún nefndi að blindir eigi rétt á allri almennri þjónustu og að það fyrsta sem fólk þurfi að gera er að hafa samband við ráðgjafa í þjónustumiðstöð svæðisins hjá sér og fara í grunnmat. Miðstöðvarnar eru fjórar: í Grafarvogi, Efstaleiti, Mjódd og Laugarvegi auk rafrænnar þjónustumiðstöðvar.

Ef sjónskertur einstaklingur þarf aðstoð í meira en 15 tíma er þjónustuþörfin metin hjá ráðgjafa. Beingreiðslusamningar eru gerðir við einstaklinga sem geta ekki nýtt sér venjulega þjónustu. Þá sér einstaklingurinn sjálfur um að ráða fólk til starfa sem verktakar. NPA-samningar eru gerðir við einstaklinga með mjög miklar þjónustuþarfir og stýra þeir sjálfir sinni þjónustu.

Ellilífeyrisþegar geta haft rétt á þessari þjónustu ef fötlun þeirra er ekki vegna öldrunar.

Aðalbjörg nefndi að helstu ógnanir fyrir þjónustuna væru skortur á fjármunum og fagþekkingu og mönnunarvandi þar sem atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Hins vegar þýðir sáttmáli SÞ um réttindi fatlaðs fólks tækifæri. Borgin vill gera vel og styður þessa þjónustu. Ný velferðarstefna verður unnin í byrjun næsta árs og þjónustan á að vera í fyrirrúmi.

Sandra Dögg Guðmundsdóttir sagði einnig frá reynslu sinni af því að fá beingreiðslusamning.

Hún er ekki sérstaklega jákvæð þar sem hún hafi beðið í þrjú ár eftir beingreiðslusamningi og þar á undan heilt ár til að fá að leggja inn umsóknina. Henni var tjáð að það væri enginn peningur og að maki hennar gæti aðstoðað hana. Hún var búin að fá liðveislu en sú þjónusta var ekki á hennar forsendum. Þjónustan var í boði á ákveðnum tímum sem ekki endilega hentuðu henni.

Beingreiðslusamningurinn gefur Söndru mikið frelsi. Það eru þó gallar í samningum: það má ekki nota hann við stuðning við barn og ekki heldur við nám.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem átti einnig að tala á fundinum mætti ekki vegna veikinda.

Ásdís E. Guðmundsdóttir sagði frá þeirri þjónustu sem hún fékk í Noregi í samanburði við sveitarfélagið Árborg. Meginmunur á þjónustunni var sá að í Noregi var henni boðin þjónusta á fyrra bragðið þegar hún var ólétt á tvíburum en hér hefur hún þurft að berjast fyrir að fá ferðaþjónustuna jafnvel samþykkta þegar hún heimsækir Reykjavík. Á Selfossi fær hún sömu þjónustu og aldraðir. Ásdís nefndi einnig að þjónustuþarfir hennar munu breytast með tímanum þar sem hún er farin að sjá verr.

 

Pallborð með frummælendum

Sigurjón Einarsson vildi fá nánari upplýsingar um beingreiðslusamninginn. Halldór útskýrði að borgin greiðir inn á reikning hjá honum ákveðna upphæð og aðstoðarmenn hans senda honum vinnuseðla. Halldór borgar viðkomandi starfsmanni laun og sendir launaseðil, en starfsmaðurinn sér um að borga skatta sjálfur. Reikningurinn er gerður upp um hver áramót og ef hann er ekki búinn að nýta allt fjármagnið, óskar borgin eftir endurgreiðslu. Hann getur einnig greitt aðstoðarmönnum kílómetragjald fyrir 70 km á mánuði. Einnig er innifalinn í samningnum ákveðinn kostnaður fyrir frítíma sem er rúmlega 5000 kr. á mánuði.

Aðalbjörg bætti við að stuðningsþörfin sé metin í tímum og sé einungis í boði þeim sem eiga erfitt með að nota venjulega þjónustu. Ef einstaklingnum er synjað um þessa þjónustu er hægt að leita til réttindagæslumanns í borginni. Þessi þjónusta á grundvelli um laga um fatlað fólk er ekki aldurstengd. Einnig var spurt um hvort leyfilegt sé að ráða makann en það er ekki æskilegt.

Þórarinn Þórhallsson benti á að þjónustan er mismunandi eftir sveitarfélögum og að það sé þörf fyrir samræmingu. Ólafur Þór nefndi að það hefur verið erfitt að berjast fyrir að fá þessa þjónustu. Aðalbjörg viðurkenndi ákallið frá fötluðum um að samræma þjónustuna þó að fjárhagsstaða minni sveitarfélaga komi í veg fyrir það. Fatlaðir þora ekki að flytja á milli sveitarfélaga ef þau hafa fengið góða þjónustu.

Halldór benti á að það þurfi að hugsa um lausnir svo hver og einn þurfi ekki að vera í sinni baráttu, Sjónstöðin gæti t. d. gefið sveitafélögum ráðgjöf og gæti borgin fengið vottorð um sjónskerðingu eða mat á þjónustuþörfinni.

Rósa María Hjörvar benti á hversu mikilvægt það er að þróa þessa löggjöf. Heimaþjónustan hefur ekkert að gera með málfellum fatlaðra þar sem hún er ekki skilgreind eftir þörfum einstaklinga.

Aðalbjörg sagði að aðstoðarmenn þurfa að kunna að veita þjónustuna. Viðhorfsbreytingar taka langan tíma og það þarf að hafa í huga að blindir þurfa öðruvísi þjónustu en t. d. þroskahamlaðir.

 

6. Kynning á styrktarsjóðum sem Blindrafélagið heldur utan um í samstarfi við ýmsa aðila.

Ákveðið var að fresta þessum punkti til næsta fundar.

 

6. Önnur mál.

Þórarinn Þórhallsson minnti á jólahlaðborðið 3. desember.

 

Sigþór sleit fundinum kl. 18:40.