Fundargerð stjórnar nr. 7 2018-2019

Fundargerð 7. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn þriðjudaginn 16. október kl. 16:00 að Hamrahlíð 17

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (S.U.H.) formaður, Lilja Sveinsdóttir (L.S.) varaformaður, Hjalti Sigurðsson (H.S.) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (E.K.Þ.) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (R.Ó.G.) meðstjórnandi, Rósa Ragnarsdóttir (R.R.) varamaður, Dagný Kristmannsdóttir (D.K.) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (Þ.Þ.) varamaður var í símanum og Kristinn Halldór Einarsson (K.H.E.) framkvæmdastjóri.
Fjarverandi: Guðmundur Rafn Bjarnason (G.R.B.) varamaður.

1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður (S.U.H.) setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.
S.U.H. bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum: engin önnur mál.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 6. fundar, sem send var stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða .

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

  • Haustúthlutun Stuðnings til sjálfstæðis.
  • Alþjóða sjónverndardagurinn (World sight day) 11. október.
  • Styrk til vefvarps Blindrafélagsins.
  • Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands 5. og 6. október.
  • Umsögn um þingsályktunartillögu um lögfestingu S.S.R.F.
  • Hádegisspjall um punktaletursnótur 26 september.
  • Málþing frá stjórnarskrá til veruleika 26 september.
  • Könnun á tíðni neikvæðra samskipta og húsnæðisaðstæður félagsmanna.
  • Erlent og innlent samstarf, mikilvægar dagsetningar.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Rekstrarafkomu fyrstu 9 mánuði ársins.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Fjáraflanir.
  • Leiðsöguhundaverkefnið.
  • Jólahlaðborð starfsfólks og stjórnar Blindrafélagsins.

Erindi:
Skúli Sveinsson lögmaður vekur athygli á óaðgengilegu formi á dómum Landsréttar.
Samþykkt var að fela K.H.E. að bregðast við tilmælum í erindinu og gera kröfu um úrbætur.

4. Inntaka nýrra félaga.

Fyrir lágu umsóknir frá 7 einstaklingum þar af eru 5 sjónskertir og 2 lögblindir, 6 karlar og 1 kona. Voru allar umsóknirnar samþykktar með hefðbundnum fyrirvara um staðfestingu aðalfundar.

5. Rekstraruppgjör fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga 2018.

K.H.E. gerði grein fyrir bráðabirgða rekstrarafkomu fyrir fyrstu 9 mánuði ársins sem eru eftirfarandi:
Tekjur: 169 m.kr.
Áætlun gerði ráð fyrir 165,9 m.kr.
Gjöld: 143,3 m.kr.
Áætlun gerði ráð fyrir 164 m.kr.
Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBIDTA) er jákvæð um 25,7 m.kr. sem er 15% af veltu. Varðandi frekari sundurliðanir vísast í fylgigögn send stjórnarmönnum. 

Almenn ánægja var með rekstrarafkomuna meðal stjórnarmanna.

6. Félagsfundur í nóvember.

S.U.H. opnaði umræðu um dagskrá félagsfundar í nóvember. Hann varpaði fram hugmynd um að taka fyrir helstu niðurstöður úr fyrirhugaðri skoðanakönnun sem Gallup er að fara gera fyrir félagið, eins stakk hann uppá að fjalla um leiðsöguhunda og hvað það fæli í sér að vera með leiðsöguhund. Samþykkt var að halda félagsfundinn 15. eða 21. nóvember. S.U.H. myndi kanna hvor tíminn hentaði betur út frá afhendingu leiðsöguhundanna.

7. Veiting Gulllampa Blindrafélagsins.

S.U.H. lagði til að Kristínu Gunnarsdóttur yrði veittur Gulllampi Blindrafélagsins í kveðjuhófi sem henni verður haldið til heiðurs föstudaginn 19. október í tilefni af starfslokum hennar hjá Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni. Eftirfarandi rökstuðningur er lagður fram:

„Kristín Gunnarsdóttir sjóntækjafræðingur, sem nú lætur af störfum hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, hefur starfað að málefnum blindra og sjónskertra einstaklinga samfellt í 33 ár.

Kristín var fyrsti fastráðni starfsmaður Sjónstöðvar Íslands sem sett var á stofn árið 1986. Hún starfaði á Sjónstöðinni allt þar til að Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin leysti Sjónstöðina af hólmi í upphafi árs 2009 og hefur starfað þar síðan.

Allan sinn starfsferil hefur Kristín fylgst vel með og verið ötul í að sækja sér endurmenntun og nýja þekkingu.

Á þessum 33 árum eru þeir orðnir fjölmargir félagsmenn Blindrafélagsins sem notið hafa þjónustu Kristínar og kynnst þægilegu og hlýlegu viðmóti hennar og fagmennsku.
Kristín hefur einnig verið ötul við að safna gömlum gleraugum sem hún hefur síðan farið með út í heim til landa þar sem gleraugu er ekki sjálfsögð hjálpartæki fyrir efnalítinn almenning. Með þessu starfi hefur Kristín gefið þúsundum einstaklinga ný tækifæri með því einfaldlega að koma til þeirra gleraugum sem ekki var lengur not fyrir hér á landi.

Kristín Gunnarsdóttir hlýtur Gulllampa Blindrafélagsins fyrir 33 ára farsælt starf við að þjónusta blinda og sjónskerta einstaklinga hér á landi og fyrir að hafa frumkvæði að því að veita þúsundum samherja okkar í fátækari löndum heims betra líf, með gleraugum við hæfi.“

Samkvæmt lögum Blindrafélagsins verður Gulllampinn eingöngu veittur ef allir aðal- og vara stjórnarmenn eru því sammála.

Allir stjórnarmenn samþykktu tillöguna. Guðmundur Rafn Bjarnason veitti samþykki fyrir fundinn með tölvupósti.

8. Önnur mál.

Rætt var um vel heppnað viðtal í dægurmálaútvarpi Rásar 2 sem E.K.Þ. og Dagbjört Andrésdóttir fóru í, í tilefni af Degi Hvíta stafsins 15. október.

Eyþór sagði frá Dream it Do it eRasmus verkefni sem hann tók þátt í ásamt Helgu Dögg í Þýskalandi fyrr í mánuðinum og þeim tækifærum sem að eRasmus verkefnin geta falið í sér fyrir ungt fólk í Evrópu.

Fundi slitið kl 18:40.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.