RIWC 2020 rástefnan á Íslandi - Ráðstefnugjöld niðurgreidd fyrir félagsmenn Blindrafélagsins.

Dagana 4. - 6. júní 2020 verða haldnar tvær alþjóðaráðstefnur í Hörpu þar sem augnlæknavísindi verða til umfjöllunar.  Um er að ræða 21st Retina International World Conferance 2020 (RIWC2020) og Norræna augnlæknaþingið (NOK 2020). Á RIWC ráðstefnunni koma saman sumir af fremstu vísindamönnum í heimi sem vinna að rannsóknum og tilraunum sem hafa það markmið að finna lækningar og/eða meðferðir við ólæknandi hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu. Þetta eru sjúkdómar eins og til dæmis AMD, RP, Usher, LCA, Stargardt o.fl. Þessir sjúkdómar eru gjarnan kallaðir IRD eða Inherided Retina distrophys. Á RIWC ráðstefnunni verða fyrirlestrar sem sérstaklega eru hugsaðir fyrir leikmenn þar sem vísindamenn setja flókin vísindi fram á einföldu mannamáli. Frekari upplýsingar um ræðumenn og dagskrá eru á heimasíðu ráðstefnunnar.

Ráðstefnugjöld niðurgreidd fyrir félagsmenn Blindrafélagsins.

Stjórn Blindrafélagsins hefur ákveðið að bjóða félagsmönnum niðurgreiðslu á RIWC2020 ráðstefnugjaldinu. Í stað þess að greiða 35.000 kr., sem er almenna gjaldið, þá greiða félagsmenn einungis 10.000 kr. Innifalið í ráðstefnugjaldinu er kaffi og matur á meðan á ráðstefnunni stendur. Þeir sem að vilja fá nánari kynningu og fræðslu á vísindunum og hvað verið er að gera í öðrum löndum, geta sótt fræðsludagskrá sem að verður fimmtudaginn 4. júní í Hörpu, frá morgni til kl. 16:00. Fræðsludagskráin ber enska nafnið Continous Education Program (CEP). Þátttökugjaldið á CEP er 10.000 kr.

Félagsmenn sem eiga þess kost eru hvattir til að skrá sig á RIWC 2020 ráðstefnuna þar sem að um einstakan viðburð er að ræða. 

Skráning fer fram í gegnum skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525 0000 og þarf að ganga frá greiðslu við skráningu.